Stjórn Íslandsbanka blessaði lögbrot bankans þrátt fyrir ábendingar fjármálaeftirlitsins og lagði til sektargreiðslu til að losna undan frekari málarekstri. Og féllst á að hvorki stjórnin sjálf, bankastjórinn né framkvæmdastjórn bankans öxluðu ábyrgð.
En hver er þessi stjórn?
Formaður stjórnar er Finnur Árnason, fyrrum forstjóri Haga en nú sjálfstætt starfandi ráðgjafi og stjórnarmaður. Varaformaður er Guðrún Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá PayAnalytics ehf.
Auk þeirra sitja í stjórninni þau Anna Þórðardóttir fyrrum endurskoðandi og nú sjálfstætt starfandi stjórnarmaður, Ari Daníelsson sjálfstætt starfandi stjórnarmaður og fjárfestir, Frosti Ólafsson forstjóri Olís, dótturfélags Haga, Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech hf.
Eiga stjórnarmenn hlut í bankanum?
Ef við teljum maka með þá á Finnur hlutabréf í Íslandsbanka fyrir 23,8 m.kr., Ari fyrir 59,3 m.kr., Frosti fyrir 4,4 m.kr. og Tanya fyrir 526 þús. kr. Samanlagt er þetta 0,04% af hlutafé bankans.
Öll nema Anna og Tanya hafa farið í MBA-nám sem er einskonar pungapróf í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Þar er því haldið að nemendum að fyrirtæki eigi aðeins að reka út frá þörf eigenda fyrir arð, að það sé leiðarljósið sem stjórn fyrirtækja beri að elta. Innan nýfrjálshyggjunnar er flest annað víkjandi. Ef hluthafinn græðir, þá er það sönnun þess að allt sé á réttri leið.