„Rísum upp gegn aðgerðarleysi stjórnvalda! Rísum upp gegn stýrirvaxtahækkunum Seðlabankans. Rísum upp gegn dýrtíð og stöðunni á húsnæðismarkaði. Rísum upp gegn óréttlætinu,“ segir í boði á mótmælafund sem Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR boðar á Austurvelli klukkan tvö í dag.
Það viðrar vel til mótmæla. Samkvæmt vef Veðurstofunnar er spáð níu stiga hita, fremur hægum vindi að vestan og glampandi sólskini.
Mælenda skrá er þétt: Þorvarður Bergmann Kjartansson stjórnarmaður í VR og ASÍ-ung, Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ, Sæþór Benjamín Randalsson stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Samtaka Leigjenda, Ásta Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Fundarstjóri er Magga Stína.
„Í eftirmálum hrunsins gat verkalýðshreyfingin ekki gengið upp lágreistan stiga án þess að mæðast og gefast upp. Í dag höfum við úthald og kjark, áræðni og dug til að taka slaginn fyrir alvöru. Og við munum gera það! Við höfum sjaldan eða aldrei verið í betra formi til þess,“ skrifaði Ragnar Þór í aðdraganda fyrri mótmælafundar með sömu yfirskrift fyrir tæpum mánuði.
„Við verðum í framlínunni og þið þurfið ekki að bíða eftir okkur. Við erum hér og munum rísa upp og leiða baráttuna sem fram undan er. Við munum mótmæla og láta í okkur heyra og við munum fara í verkföll og nota allan okkar styrk, tæki og tól til að knýja á um breytingar. Breytingar sem miða að þörfum okkar allra. Réttlátara og betra samfélagi þar sem mælikvarðinn verður staða okkar veikustu bræðra og systra en ekki hvað við eigum marga á lista yfir ríkasta fólkið,“ skrifaði Ragnar Þór.
Hér er fundarboðið á Facebook: Rísum upp! Að morgni fundardags höfðu um sautján hundruð manns boðað komu sína eða lýst yfir áhuga á að mæta.