Á morgun hefst enn önnur alþjóðleg ráðstefna á vegum ríkisstjórnarinnar í Hörpunni. Nú ætlar forsætisráðuneytið að halda svokallaða „velsældar- og sjálfbærniráðstefnu“. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra ætla öll að kynna yfir umheiminum hvernig þau hafa náð að auka velsæld á Íslandi.
Þetta er ekkert grín, því ráðstefnan er kynnt svo á vef stjórnarráðs Íslands: „Undanfarin ár hafa stjórnvöld lagt aukna áherslu á velsæld og sjálfbærni í aðgerðum sínum til auka lífsgæði almennings og komandi kynslóða. Hafa stjórnvöld mótað velsældarvísa og sérstakar velsældaráherslur auk þess að ráðast í umfangsmikla stefnumótun á sviði sjálfbærni með útgáfu grænbókar og heildarstefnu í málaflokknum síðar á þessu ári.“
Enn fremur segir að Ísland hafi verið virkur þátttakandi í samstarfi við önnu ríki að leggja áherslu á aðra mælikvarða en eingöngu landsframleiðslu til að mæla framgang ríkja og lífsgæði íbúa. „Ráðstefnan er liður í því að efla enn frekar vitund opinberra aðila, almenna markaðarins og almennings um mikilvægi þessara mála með það að markmiði að fleiri skref verði tekin í átt að enn öflugra velsældarhagkerfi og velsældarsamfélagi. Ráðstefnan er vettvangur fyrir frekara samstarf um velsældarhagkerfi milli Norðurlandanna og annarra þjóða sem eru leiðandi á þessu sviði,“ segir í kynningu á ráðstefnunni.
Fjöldi erlendra fyrirlesara koma til landsins og halda erindi, en meðal helstu fyrirlesara á ráðstefnunni eru:
- Hans Kluge, framkvæmdastjóri WHO í Evrópu
- Lord Richard Layard, forstöðumaður Centre for Economic Performance
- Kate Pickett og Richard Wilkinson, prófessorar og stofnendur Patron of the Equality Trust
- Chris Brown, yfirmaður Evrópuskrifstofu WHO fyrir fjárfestingar, heilsu og þróun
- Carrie Exton hjá OECD Wise Centre
- Heikki Hiilamo prófessor