Samkvæmt nýrri skýrslu sænsku hugveitunnar SIPRI (Stockholm International Peace Research Institute), sem gefur árlegt yfirlit yfir stöðu heimsins í kjarnorkuvopnamálum, þá var Kína með 17% fleiri kjarnorkuvopn í janúar 2023 en árið á undan. Samkvæmt rannsókn þeirra, þá er áætlað að kjarnorkuvopnabúr Kína hafi farið úr 350 kjarnorkuvopnum uppí 410 á einu ári.
Ef fram heldur sem horfir, þá verður kjarnorkuvopnabúr Kína orðið sambærilegt við Bandaríkin og Rússland í kringum árið 2030.
Kjarnorkuvopnabúr heimsins í heild hefur aukist um 86 samkvæmt áætlunum SIPRI, en þau voru 12.512 í janúar 2022.
Af þessum fjölda eru í kringum 2000 kjarnorkuvopn – nánast öll frá Rússlandi og Bandaríkjunum – ávallt reiðubúin til að fara af stað og hitta skotmörk sín innan nokkurra mínútna (e. hair-trigger alert).
Kjarnorkuvopnabúr heimsins
Bandaríkin og Rússland eru þó enn með yfirgnæfandi meirihluta allra kjarnorkuvopna í heiminum – eða rétt tæplega 90%.
Í febrúar tilkynnti Rússland að það tæki ekki lengur þátt í nýja START samningnum, en hann setur miklar hömlur á notkun kjarnorkuvopna.
