Árni Rúnar Þorvaldsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfjarðar, segist í samtali við Samstöðina ætla að krefjast svara á næsta fundi fjölskylduráðs um hvers vegna Hafnarfjarðarbær neitaði að greiða fyrir veru heimilislauss karlmanns á sextugsaldri í neyðarskýli Reykjavíkurborgar. Heimildin greindi frá því í vikunni að maðurinn hafi svipt sig lífi eftir að honum var ítrekað vísað frá neyðarskýli Reykjavíkurborgar.
Maðurinn átti lögheimili í Hafnafirði en að sögn systur hans var honum vísað frá að beiðni Hafnarfjarðarbæjar. Reykjavíkurborg hækkaði gistináttagjald í neyðarskýlinu á dögunum, fyrir þá sem eiga lögheimili utan borgarinnar, úr 21 þúsund krónum í 46 þúsund.
„Ég þekki ekki alveg forsendurnar fyrir þeirri ákvörðun en ég hef óskað eftir því að fá upplýsingar um málið á næsta fundi fjölskylduráðs sem verður á mánudaginn. Ef kostnaður hefur verið ástæðan fyrir því að viðkomandi einstaklingi hafi verið vísað frá neyðarskýlinu þá finnst mér það óásættanlegt,“ segir Árni Rúnar.
„Ef það hafa orðið einhverjar breytingar á framkvæmd þessara mála eftir hækkun gistináttagjaldsins þá er mér ekki kunnugt um það og við í Samfylkingunni munum krefja meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks svara um það á fundi fjölskylduráðs á mánudaginn.“
Árni Rúnar segir nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort hækkun gistináttagjalds í neyðarskýlinu hafi haft áhrif á mál mannsins. „Við þurfum í það minnsta að fá svör um það hvort hækkunin, sem búið er að samþykkja með undirritun viðauka þann 24. apríl síðastliðinn við gildandi samning við Reykjavík með gildistíma frá 1. maí síðastliðinn, hafi haft einhver áhrif á framkvæmd þessara mála hjá bænum. Hvort verið sé að vísa fólki frá neyðarskýlum vegna kostnaðaraukans í einhverjum tilvikum,“ segir Árni.
„Mér hefur alla vega ekki verið kynnt að verklag hafi eitthvað breyst í þessum málum. Það er búið að undirrita samning, viðauka við gildandi samning, um hækkun á gistináttagjaldinu við Reykjavík. Ef eitthvað hefur breyst í framkvæmd þessara mála vegna kostnaðaraukningar þá þarf að ræða það í fjölskylduráði og bæjarstjórn. Ef kostnaðaraukinn er ástæðan þá finnst mér það algjörlega óásættanlegt.“