Kristinn Hrafnsson bendir á hræsni íslenskra stjórnvalda í Úganda

Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, bendir á hræsni íslenskra stjórnvalda í mjög áhugaverðri færslu á Facebook sem hann birti í gær. 

Við skulum bara gefa honum orðið:

Undir lok síðasta mánaðar staðfesti Youweri Museveni, forseti Úganda, nýja og herta löggjöf gegn samkynhneigð sem er að líkindum ein sú ógðefelldasta í heiminum. Samsláttur fóllks af sama kyni getur í verstu tilfellum varðað dauðarefsingu. Það getur einnig leitt til langrar fangavistar að „hvetja til“ samlífs samkynhneigðra og refisvert verður að leigja hommum húsnæði.

Víða í Afríku er þrengt að réttindum hinsegin fólks og á þetta sér sögulegar skýringar umfram einhvert sérstakt  inngróið hommahatur Afríkumanna. Í mörgum löndum kom hatrið inn í löggjöf frá nýlenduherrunum  t.d. í tilfelli Úganda þar sem lög um bann við samkynhneigð kom beint frá Bretum.  Við sjálfstæði nýlendanna hélst  lagahefð nýlenduherrans á sama máta og íslenska stjórnarskráin var sú danska í upphafi lýðveldisins, eingöngu með nýjum haus (bréfhaus og þjóðhöfðingja).

Þegar réttindi hinsegin fólks voru aukin í Vestrænum ríkjum fylgdu gömlu nýlendurnar ekki eftir. Og verra en það, því litið var á tilraunir til að hvetja til umburðarlyndis gagnvart samkynhneigðum sem inngrip í inannríkismál og árás á fullveldi landanna. Svona álíka og Breska íhaldsstjórnin lítur á inngrip Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) til að stöðva nauðungarflutninga hælisleitenda til Rúanda í Afríku, sem árás á fullveldi Bretlands. Sömu rök um árás á fullveldi komu frá  Jóni Steinari Gunnlaugssyni, fyrrverandi Hæstaréttardómara Sjálfstæðisflokksins þegar dómur féll gegn Íslandi í MDE í Landsréttarmálinu, dómnum sem felldi Sigríði Andersen af stóli innanríkisráðherra. Fleiri Sjálfstæðismenn tóku undir þau rök, með beinum hætti eða undir rós, meðal annars Andersen sjálfri en Bjarni Benediktsson, flokksformaðurinn vísaði til þess að í Bretlandi færu fram „líflegar umræður” um hvort segja ætti Bretland úr MDE.  Þær líflegu umræður sem Bjarni vísaði til fyrir fjórum árum eru núna að leiða til dauða Mannréttindasáttmála Evrópu í Bretlandi.

Í Úganda sem og í ríkjum eins og Ghana og Kenía hefur verið litið á tilraunir utanaðfrá til að innleiða umburðarlyndi í málefnum LGBT fólks sem endurvakningu nýlendustefnu og árás á fullveldi. Hins vegar hefur öfgasinnuðum kirkjuhópum annars staðar frá, eins og amerískum hvítasunnusöfnuðum, verið boðið að flytja sitt fagnaðarerindi í löndunum en það erindi felur yfirleitt í sér andúð á hinsegin fólki. Linnulaus undirróður þessara fjársterku samtaka í Afríkuríkjum á liðnum árum hefur skilað árangri. Þau hafa verið auðfúsugestir og jafnvel skipuleggjendur ráðstefna um „fullveldið og fjölskyldugildin“, möntru sem nú heyrist frá fánaberum fasismans víða um heim. Umtalsverð ábyrgð á því að Úgandamenn velja nú að lögleiða dauðarefsingu gegn homumm liggur því hjá vestrænum öfgatrúarhreyfingum  sem víða eru í farsælu hjónabandi með öfghahægrinu eða hreinum fasistaflokkum..

Á þetta er minnt núna í samhengi við þá nýbreytni hjá íslensku ríkisstjórninni að mótmæla stríðsglæpum og brotum á alþjóðalögum með því að loka sendiráðum. Óbeit á stríðsglæpum og alþjóðalagabrotum er nýmæli á Íslandi en til þessa hefur Ísland haft fremur milda afstöðu til þessara mála, jafnvel stutt brotin eins og í Írak.

Í sjálfu sér er ekki hægt að agnúast út í að skera stórlega niður í íslensku utanríkisþjónustunni enda væri það í fullkomnu samræmi við að Ísland hefur óskaplega fátæklega utanríkisstefnu – ef nokkra.  Í flestum tilfellum erum við ekki að spila á vellinum heldur klæðum okkur í treyju  uppáhaldsliðsins, borðum snakk, sötrum bjór og styðjum okkar lið uppi í stúku. Lokun sendiráðsins í Moskvu væri í lagi mín vegna ef hún væri viðurkenning á því að við erum ekki sjálfstæð og ætlum okkur að flökta sem viðhengi hnignandi stórveldis. Hins vegar virðist þetta lítthugsuð aðgerð sem virðist  endurspegla fákunnáttu um lögmál merkjasendinga í diplómatískum samskiptum.

En úr því íslensk stjórnvöld eru byrjuð að rífa upp rauða spjaldið upp í stúku, af slíkum röggskap að snakkið þeytist í allar áttir og bjórinn sullast úr plastglasinu, ættu menn ef til vill næst að horfa til Úganda.

Þar erum við nefnilega með sendiráð.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí