Vísitala byggingarkostnaðar hækkaði aðeins um 0,2% í júní. Dregið hefur úr hækkunum vísitölunnar hratt frá í apríl, en hækkunin síðustu þriggja mánaða jafngildir 2,3% ársverðbólgu.
Á síðustu þremur mánuðum hafa laun hækkað um 0,5% en innlent efni hins vegar um 1,5% eða þrisvar sinnum meira. Á sama tíma hefur innflutt efni lækkað um 1,2%, enda hefur krónan heldur verið að styrkjast samhliða því sem dregið hefur úr verðbólgu erlendis.
Byggingarvísitalan gefur því nokkra innsýn inn í þróun verðbólgunnar hér. Það er ekki svo að laun knýi hana áfram eins og Seðlabanki og stjórnvöld halda fram og enn síður erlendar hækkanir eða lækkun á gengi krónunnar. Það sem helst hækkar eru innlendar vörur og þá langt umfram aðföng eða laun. Slík verðbólga er kölluðu hagnaðardrifin verðbólga eða græðgisverðbólga.
Hagstofan gefur út neysluvísitölu fyrir júní á miðvikudaginn. Þar eru laun ekki 1/3 mælingarinnar eins og varðandi byggingarvísitölu og þar er meira af innlendri þjónustu ýmisskonar og svo auðvitað söluverð fasteigna. Byggingarvísitalan er því ekki góð spá um þróun neysluvísitölu, en þó má segja að líklegra sé að lítil hækkun mælist á neysluvísitölunni eins og var reyndin í maí. En þegar græðgin er helsta breytiaflið er erfitt að spá.