Samkvæmt aðgerðasinnum, líkt og Greta Thunberg, alþjóðlegum baráttusamtökum, ásamt fulltrúum fátækari landa, var loftslagsráðstefna helstu þjóðarleiðtoga heims sem lauk í dag mislukkuð. Litlum sem engum samningum var náð. Gagnrýnendur vilja meina að það sem sammælst var um, aðallega meðal þjóðarleiðtoga Vestursins, var lítið sem ekkert þegar kemur að því að berjast á móti loftslagsbreytingum.
Samkoman sneri einna helst að því að reyna að ná tökum á fjárhagslegum hliðum loftslagsbreytinga og aðgerðanna gegn þeim, sem vel flest lönd heims hafa skuldbundið sig til að ráðast í að einhverju leyti. Var þessi fundur þjóðarleiðtoganna ákveðin upphitun, ef svo má að orði komast, fyrir aðal samkomuna COP23 sem verður síðar á árinu, 6.-18. nóvember, í Bonn í Þýskalandi.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands, talaði fyrir alþjóðlegum skatti á vöruflutninga, flug, og ræddi einnig aðeins um möguleikann á hærri alþjóðlegum sköttum á auð – en var þó nokkuð tvístíga í þeim málaflokki.
Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að ríkisstjórn Bandaríkjanna myndi íhuga skattinn á alþjóðlega vöruflutninga. Samkoman endaði þó án nokkurra fastra samninga um þau mál.
Fundurinn snerist einnig að miklu leyti um umbætur á Alþjóðabankanum, en nýr forseti hans, Ajay Banga, hélt ræðu um nýja sýn hans fyrir hlutverk hans, þar sem fátækum löndum mun verða hjálpað upp, á sama tíma og þau taki þátt í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum.
Alþjóðabankinn sagðist einnig ætla að frysta skuldir fátækari ríkja. Bretland sagðist einnig ætla að slaka tímabundið á kröfum sínum á að fyrrum nýlendur sínar, ásamt öðrum fátækari löndum, borgi þeim þær gríðarlegu fjárhæðir sem löndin gera árlega.
Er þó einungis um frestun á afborgunum að ræða – ekki útrýmingu þeirra skulda.
Samkoman endaði á því að þjóðarleiðtogar heimsins voru sammála um að mikið þarf að gera í fjármálum heimsins, ef takast eigi að berjast almennilega gegn loftslagsbreytingum. En eins og svo oft áður, þá var mikið um fagurgala, loforð og lítið um efndir.
Samkvæmt alþjóðlegum baráttusamtökum og aðgerðasinnum gegn loftslagsbreytingum voru loforðin í þetta skipti ekki einu sinni nærri því nægilega góð.
Greta Thunberg til dæmis, sem var á staðnum, gagnrýnir samkomuna, ekki síst fyrir það að hafa tekist algjörlega að skauta framhjá einu allra mikilvægasta atriðinu þegar kemur að loftslagsbreytingum: framleiðsla og notkun jarðefnaeldsneytis.
Mikil mótmæli voru fyrir utan, á meðan á samkomunni stóð.