Morgunblaðið kvartar undan útlendingamálum sem eru Sjálfstæðisflokknum að kenna

Morgunblaðið heldur áfram að blása í herlúður Sjálfstæðisflokksins, sem vill nú kenna útlendingum um allt sem er ólagi á Íslandi, en ekki þeim sem hafa stýrt landinu síðasta áratug. Í ritstjónargrein sem birtir í Morgunblaðinu í dag er kvartað undan fjölda flóttamanna til Íslands. Þar er þó hvergi nefnt að helst megi kenna Sjálfstæðisflokknum um þann fjölda, þeir séu flestir frá Úkraínu eða Venesúela, en Sjálfstæðismenn börðust sérstaklega fyrir því að greiða leið þeirra síðarnefdu til Íslands. Nánar má lesa um það í frétt Samstöðvarinnar fyrr í dag.

Leiðari Morgunblaðsins er þó til marks um að Sjálfstæðismenn séu að reyna fyrir sér harðari stefnu í útlendingamálum, sem bendir svo til þess að styttra kann að vera til kosninga en margir héldu. Ósennilegt er að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, haldi á penna, því leiðarar hans eru yfirleitt ruglingslegri.

Leiðarann má lesa í heild sinni hér fyrir neðan

Það hriktir í ríkisstjórnarsamstarfinu rétt eftir þinglok, þar sem einstök hitamál koma við sögu. Þar þurfa þrír stjórnarflokkar að miðla málum og nokkuð reynir á lagni Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við að halda hópnum saman.

Verðbólgan hefur reynst erfið við að eiga og óróleiki á vinnumarkaði lofar ekki góðu, svo hugsanlega er þráðurinn í mönnum styttri en ella. Einmitt þá sést úr hverju forystumenn ríkisstjórnarinnar eru gerðir, hvort þeir kjósa stundarhagsmuni eða stjórnfestu.

Það virðist hafa vakið gremju sumra þingmanna Vinstri grænna að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, sagði Alþingi hafa brugðist í útlendingamálum, stjórnvöld því misst tökin á málaflokknum og kostnaðurinn farið gjörsamlega úr böndum.

Það er ekki ofmælt hjá Bjarna. Skattgreiðendur geta ekki unað því að nokkur útgjaldaflokkur ríksins belgist stjórnlaust út á nokkrum árum vegna fálætis þingsins eða viðkvæmni við að taka á honum. Það er óþolandi að á annað þúsund manns bíði eftir svari um hæli á Íslandi, sem leiðir af sér kostnað sem slagar hátt í milljarð kr. á mánuði.

Er það þó aðeins hluti útgjalda vegna hælisleitenda; heildartalan liggur ekki fyrir, en giskað er á 2530 milljarða kr. á ári. Það eru engir smápeningar – öll aðföng Landspítalans á ári kosta um 20 milljarða.

Þetta varðar þó ekki aðeins útgjöld ríkissjóðs.

Lengi voru umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi vel innan við 100 á ári, en þeim snarfjölgaði 2016 og voru um 900 á ári fram til 2022 þegar þeir reyndust 4.571 og verða enn fleiri í ár.

Úkraínustríðið skipti mjög miklu, þaðan hafa alls komið liðlega 3 þúsund manns, en hægst hefur á straumnum. Aðra sögu er að segja af fólki frá Venesúela, sem draga má í efa að hafi allt átt fótum fjör að launa. Þaðan hafa alls komið rétt tæplega 3 þúsund manns, en straumurinn þaðan þyngist og útlit er fyrir að á þessu ári komi alls meira en 2 þúsund Venesúelabúar, um fjórðungi fleiri en frá Úkraínu.

Af næsta stjórnlausri komu alls þessa fólks til lítils lands hlýst ekki aðeins beinn kostnaður skattgreiðenda, heldur einnig félagslegur þrýstingur, eins og menn þekkja af húsnæðismarkaði, bið eftir læknisþjónustu, félagslegri aðstoð, álag í skólakerfinu og þar fram eftir götunum. Og í stað þess að verja peningunum til þess að hjálpa eiginlegu flóttafólki fer þriðjungur eða meira í að sinna fólki sem hingað kemur að þarflausu.

Ísland var í fyrra í 3. sæti allra Evrópulanda þegar horft er til umsókna frá öðrum löndum en Úkraínu, miðað við höfðatölu. Annars staðar á Norðurlöndum er meðaltal umsókna 86 á hverja 100 þúsund íbúa, langhæst í Svíþjóð með 135 umsóknir. Á Íslandi var 581 umsókn á hverja 100 þúsund íbúa.

Það er gríðarmikið, hvernig sem á er horft. Og ekki aðeins miðað við höfðatölu. Finnar – 5½ milljónar manna þjóð – fengu í fyrra um 5 þúsund umsóknir um alþjóðlega vernd og veittu 1.050 hæli. Það eru ámóta margar umsóknir og á Íslandi og ámóta margir sem fengu hæli ef við sleppum öllum Úkraínumönnum sem hingað komu. Eru Finnar þó 14 sinnum fleiri.

Ef harðnar á dalnum í efnahagslegu tilliti batnar það ástand ekki og getur hæglega leitt til félagslegrar ólgu fyrr en varir, sem býður heim hættu á núningi milli þjóðfélagshópa, eins og er þegar farið að örla á. Er útilokað að það leiði til uppgangs ógeðfelldra skoðana og skyndilausna á vettvangi stjórnmálanna ef núverandi stjórnarflokkar virðast ófærir eða óviljugir að leysa vandann?

Fyrsta skrefið til þess að leysa vanda í stjórnmálum er hið sama og á öðrum sviðum lífsins: að viðurkenna vandann. Þá fyrst má taka til við að leysa hann og jafna ágreining.

Þetta þarf ríkisstjórnin að gera og ekki síður þurfa þó þingmenn stjórnarflokkanna að gera það, stilla sig um gífuryrði, játa staðreyndir málsins sem liggja fyrir og horfa kalt á það hvernig megi leysa aðsteðjandi vanda. Um leið þarf að setja markmið um það sem Íslendingar geti gert í þessum efnum og vilji gera svo sómi sé að. Bæði fyrir Íslendinga og það fólk sem við veitum vernd. Það getur ekki snúist um það eitt hve margir vilji koma.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði að landið væri komið að þolmörkum hvað móttöku hælisleitenda snerti. Forsætisráðherra vildi ekki ganga svo langt, en játaði að það reyndi ákaflega á innviðina. Það felur a.m.k. í sér að slík mörk séu til í hennar huga og þá hafa stjórnarflokkarnir um eitthvað að tala.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí