Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, telur að Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrverandi prófessor við HÍ, hafi farið yfir strikið á Facebook. Svo virðist sem flestir Sjálfstæðismenn hafi fengið boð um að nú skyldi setja útlendingamál á dagskrá. Hver Sjálfstæðismaðurinn á eftir öðrum hefur daðrað við rasisma undanfarna daga og sagt allt í kalda koli í útlendingamálum. Þrátt fyrir að það hafi þá gerst undir þeirra stjórn.
Hannes Hólmsteinn lætur ekki sitt eftir liggja hvað þetta varðar. Hann deilir frétt um pistil Semu Erlu Serdaroglu, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún hefur gagnrýnt málflutning Sjálfstæðismanna. Hann skrifar svo:
„Getur þessi kona með erlenda nafnið ekki hætt að ónáða okkur með þessum sífelldu kvörtunum og þakkað þess í stað fyrir að hún býr ekki í Mið-Austurlöndum, heldur á Íslandi, friðsælu og auðsælu landi með minnstu fátækt í heimi, jöfnustu tekjudreifingu og mesta umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum? Bandaríkjamenn segja: America, love it or leave it.“
Þess má geta að Sema Erla er fædd og uppalin á Íslandi, móðir hennar íslensk og faðirinn frá Tyrklandi. Líkt og fyrr segir þá gagnrýnir Pawel Bartoszek Hannes en hann skrifar: „Jæja, er þetta ekki einn af þessum statusum sem maður fjarlægir, og biðst svo afsökunar á?“ Hann bætir svo við í annarri athugasemd:
„Það er fullkomlega sjálfsagt að hafa mismunandi sýn á þjóðfélagsmál, innflytjendamál þar með talið. Þeir byggja gagnrýni sína ekki á því hvað fólk á að SEGJA heldur hvað fólk HEITIR er algjörlega óframbærilegt. Að klykkja svo á því að ef fólk sé ekki sammála manni þá geti það bara drullað sér úr landi er svo svo algjörlega fyrir neðan allar hellur að það nær engu tali.“