Pósturinn mun hætta að bera póst út í hús á Kópaskeri og kynnir þessa þjónustuskerðingu sem hún sé stórkostlegt tækifæri og upplifun fyrir bæjarbúa.
„Bráðlega verður póstur á Kópaskeri borinn út í póstbox. Kópasker er fyrsti staðurinn á Íslandi, og jafnvel í heiminum, þar sem bréfapóstur er borinn út í póstbox. Um er að ræða tilraunaverkefni sem verður eingöngu á Kópaskeri til að byrja með,“ segir í fréttatilkynningu Póstsins.
Tilkynningin heldur áfram í sama stíl: „Við settum upp póstbox á Kópaskeri síðasta haust sem hefur afkastagetu til að afhenda bæði pakka og bréf á staðnum. Mun skynsamlegra er að sameina dreifikerfi bréfa og pakka í minni þéttbýliskjörnum með því að nýta póstboxin sem alhliða dreifileið. Við höfum undirbúið þetta verkefni vel í samstarfi við sveitarfélagið svo ferlið verður einfalt og þægilegt.“
Og áfram er sagt frá þessu eins og spennandi ævintýri, að í stað þess að fólk fái póstinn borinn út heim til sín þurfi það að sækja bréfin í póstbox út í bæ: „Á næstu dögum mun hvert heimili fá skráningarblað í pósti. Nöfn allra íbúa heimilisins eru skráð á eyðublað og því skilað í póstkassann við Skerjakollu. Miðað er við að einn aðili á hverju heimili sé skráður sem tengiliður fyrir móttöku á almennum bréfasendingum. Þó þarf að skrá alla heimilismenn sem fá almenn bréf send þangað. Sé einhver íbúa ólögráða þarf forráðamaður að staðfesta skráninguna með sinni undirskrift.“
Og gleði kynningardeildar Póstsins heldur áfram: „Það verður gaman að fylgjast með því hvernig til tekst. Við viljum koma á framfæri þökkum til íbúanna fyrir að taka þátt í þessu framsækna tilraunaverkefni. Ef einhverjar spurningar vakna verðum við íbúum Kópaskers innan handar. Rúnar, rekstrarstjóri Póstsins á Húsavík, verður í Skerjakollu þegar þar að kemur og hann mun aðstoða og útskýra ef með þarf. Annars er þjónustuverið opið alla virka daga í síma 580 1000 og spjallmennið Njáll hér á vefnum veit sínu viti. Ef þessi tilraun gengur vel þá er ekki ólíklegt að þessi lausn verði innleidd víðar í smærri þéttbýliskjörnum.“
Myndin er úr fréttatilkynningu Póstsins, sviðsett mynd af kampakátum íbúum Kópaskers með skerta þjónustu.