Samdráttur í landsframleiðslu í Þýskalandi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs upp á 0,3% er megin ástæða þess að samdráttur upp á 0,1% mælist í evrulöndunum. Og endurmat á landsframleiðslu síðasta ársfjórðungs síðasta árs leiddi í ljós sama samdrátt, upp á 0,1%. Það hefur því verið samdráttur tvo ársfjórðunga í röð og evrulöndin því komin á formlegt samdráttarskeið, sem óljóst er hvenær endar.
Það sem veldur samdrættinum er orkukreppan vegna stríðsins í Úkraínu og tilheyrandi viðskiptaþvingana en einnig hækkandi vextir vegna verðbólgu. Talið er að hækkun vaxta muni klippa um 2% af hagvexti í Evrulandi frá 2022-25 og þar af mest í ár.
Það er misjafn kraftur í hagkerfum landanna. Þetta graf var birt í skýrslu Hagstofu Evrópu í dag og sýnir breytingu á landsframleiðslunni frá síðasta ársfjórðungi, leiðrétt fyrir árshátíðarsveiflum.

Þarna sést að það er mikill gangur í Póllandi, Lúxemborg og nokkrum löndum í Suður-Evrópu. Á hinum endanum er Írland þar sem landsframleiðslan skrapp saman. Þar á eftir koma Litháen, Holland og Eistland.
Evrópska Hagstofan birtir töflu yfir hagvöxt í flestum löndum Evrópu. Hér er hún í einfaldari útgáfu:
Land | Hagvöxtur síðustu 6 mánuði | Hagvöxtur síðustu 12 mánuði |
---|---|---|
Ísland | 2,5% | 6,1% |
Spánn | 0,9% | 3,8% |
Kýpur | 1,7% | 3,4% |
Malta | 0,6% | 3,2% |
Rúmenía | 1,1% | 2,8% |
Króatía | 1,9% | 2,6% |
Portúgal | 1,9% | 2,5% |
Danmörk | 0,7% | 2,4% |
Noregur | 0,2% | 2,4% |
Búlgaría | 1,1% | 2,3% |
Grikkland | 1,0% | 2,1% |
Ítalía | 0,5% | 1,9% |
Holland | -0,3% | 1,8% |
Austurríki | 0,0% | 1,8% |
Bandaríkin | 0,9% | 1,6% |
Belgía | 0,6% | 1,4% |
Evruríkin 20 | -0,2% | 1,0% |
Evruríkin 19 | -0,2% | 1,0% |
ESB | -0,1% | 1,0% |
Slóvakía | 0,6% | 1,0% |
Frakkland | 0,2% | 0,9% |
Svíþjóð | 0,1% | 0,8% |
Slóvenía | 1,3% | 0,7% |
Sviss | 0,3% | 0,7% |
Lettland | 1,8% | 0,4% |
Pólland | 1,4% | 0,0% |
Írland | -4,7% | -0,3% |
Tékkland | -0,4% | -0,4% |
Lúxemborg | -1,8% | -0,4% |
Finnland | -0,4% | -0,4% |
Þýskaland | -0,8% | -0,5% |
Ungverjaland | -0,9% | -1,1% |
Litháen | -2,6% | -2,7% |
Eistland | -1,6% | -3,7% |
Ísland er þarna á toppnum með lang mestan hagvöxt síðustu tólf mánuði. Íslenska hagstofan mældi hann upp á 7,0% en þarna er hann 6,1%. Síðan koma Spánn, Malta og Kýpur sem eru allt ferðamannalönd eins og Íslands. Það er í þeim löndum sem batinn eftir cóvid er enn að koma fram á meðan aukin ferðalög vigta ekki eins hlutfallslega hátt í öðrum löndum.
Á hinum endanum eru lönd Mið og Austur-Evrópu sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum af stríðinu í Úkraínu og viðskiptastríðinu því samfara.
Stöðuna má sitja upp á landakort. Því rauðari sem löndin eru því heitara er hagkerfið. Og því blárri sem liturinn er, því meiri er samdrátturinn.
