„Þeim breytingum á áfengissölu sem nú virðast í farvatninu var hratt af stað með lagatúlkunum sem ganga gegn þeim markmiðum sem lágu löggjöfinni til grundvallar. Í stað þess að bregðast við til að að halda fyrri stefnu eða taka aðra afstöðu með formlegum hætti voru stjórnvöld aðgerðalaus þar til ráðherra, kominn fram á síðasta dag, tekur einhliða ákvörðun sem gengur þvert á stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt með góðum árangri í meira en aldarfjórðung,“ skrifar Indriði H. Þorláksson, fyrrverani skattstjóri á vef sinn. „Engin umræða fær að eiga sér stað og engin rök eru lögð á borðið til skýringar á breyttri stefnu.“
Indriði bendr á frammistöðu Bjarkeyjar Olsen, þingmanns Vg, ímálinu: „Umkomuleysi formanns fjárlaganefndar yfir vesæld eigin flokks og stjórnar í Kastljósviðtali um málið var jafn skiljanleg og gleði talsmanns væntanlegra sprúttsala. Gleði hans stafar ekki af umhyggju fyrir neytendum. Þeirra bíður verra aðgengi, minna vöruval, hærra verð og áróður sem leiðir til aukinnar neyslu með meiri félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum. Hann gleðst fyrir hönd þeirra sem vilja græða á því að selja dropann dýra en kæra sig kollótta um afleiðingarnar.“
„Þegar ég kom fyrst að málefnum áfengissölu á níunda áratug síðustu aldar vakti það athygli mína hve margir bundu vonir um velgengni við það að koma hinum dýra dropa inn fyrir varir samborgara sinna,“ byrjar Indriði grein sína. „Áfengisumboð þóttu gulls ígildi og nýliðar í bransanum börðust hart fyrir að koma sinni vöru í umferð. Þrýst var á stjórnvöld að lækka álögur og auka aðgengi en það skilaði litlu enda jafnan við stjórnvöl flokkar sem vissu að meirihluti kjósenda þeirra kærði sig kollóttan um allt frelsishjal en voru á móti áfengi af rótgrónum siðferðislegum ástæðum.
Með tilkomu EES breyttist ýmislegt í þessum efnum. Gamaldags siðferðilegt íhald átti ekki upp á pallborðið í Brussel þegar innleiða átti fjórfrelsið. Undantekningar voru þó gerðar ef unnt var að sýna fram á að þau viðskipti sem um var að ræða hefðu eða gætu haft alvarlegar afleiðingar. Stjórnvöldum í Svíþjóð og í Noregi hafði tekist að sannfæra Brussel um að heilsufarslega og félagslega nauðsyn bæri til að takmarka aðgengi að áfengi og draga úr neyslu þess með háum álögum. Í farveg þeirra fóru Íslendingar og breyttu áfengislöggjöfinni til samræmis við það.
Á þessum árum hafði orðið miklar breytingar í stefnu ÁTVR á sölu og dreifingu áfengis sem studdu við framkvæmd hinna nýrri laga. Stefnt var að því að veita sem besta þjónustu innan þess ramma sem lögin settu. Settar höfðu verið hlutlægar reglur um áfengisgjöldin og um verðlagningu á áfengi svo og reglur um vöruval og fleira sem jöfnuðu stöðu innflytjenda og drógu úr lobbyisma. Vínbúðum var fjölgað, dreift um landið og gerðar nútímalegri svo flestir landsmenn áttu greiðan aðgang að þeim án langra ferðalaga auk þess sem pöntunarþjónusta og síðar vefverslun var tekin upp.
Breytingar þessar gerðu það að verkum að talsmenn áfengisfrelsis fengu ekki mikinn hljómgrunn. Áfengissala hérlendis var komin í mjög gott horf og betra en í flestum löndum. Þrátt fyrir það hafði neysla viðkvæmra hópa einkum ungmenna dregist saman sem þakka má því að áfengissölumenn höfðu takmarkaðan aðgang að neytendum og ekki síst af farsælu starfi félags- heilbrigðis og menntamálayfirvalda við að upplýsa ungt fólk um áfengi og afleiðingar neyslu þess og drepa niður glansmynd fyllibyttunnar. Þessi þróun hafði þann stóran ókost að sumra mati að hún dró úr gróðanum af meiri sölu og hafa þeir barist gegn öllu sem takmarkar drykkju. Með fylgishruni gömlu valdaflokkanna og fækkun kjósendum með hina gömul siðferðilegu sýn á áfengismálin hafa gróðavæn viðhorf opnað sölumönnum áfengis leið til áhrifa.
Talsmenn áfengisfrelsis þykjast tala fyrir hagsmunum neytenda, betra aðgengi, fjölbreyttara úrvali og láta að því liggja að verð á dropanum muni lækka. Þeir gera lítið úr aukinni neyslu og áhyggjum af félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum hennar. Þessar staðhæfingar eru úr lausu lofti gripnar og engin rök hafa verið færð fyrir þeim. Þvert á móti má ætla að reyndin verði þveröfug eins og sjá má ef litið er með nokkurri skynsemi á einstaka þætti meintra umbóta.
Aðgengi að áfengi er þegar mjög gott hér á landi. Vínbúðir ÁTVR eru víða með fjölbreytt úrval og enn meira er að finna í Heiðrúnu auk þess sem að panta má það sem á vantar. Með vefverslun má velja úr fjölda tegunda, 4.156 þegar þetta er skrifað. Viðskiptavinum hefur reynst auðvelt að laga sig að þessum aðstæðum, grípa með sér flösku í innkaupaferðinni og geta mætt tilfallandi þörfum með forsjálni. Verði ÁTVR lögð niður er líklegt að aðgengi að góðu úrvali drykkja muni minnka. Einstakar verslanir, jafnvel í stærstu keðjunum, munu varla byggja upp lager til þess og alls ekki án mikils kostnaðar sem velt yrði út í verðið. Flestar þessara verslana eru ekki opnar mikið lengur en vínbúðir ÁTVR nema fáeinar á Stór-Reykjavíkursvæðinu, sem að vísu gæti gagnast þeim sem bráðliggur á hvítvíni með humri á síðkvöldum. Aðgengi almennra neytenda að góðu úrvali myndi því versna einkum út á landi. Ungmenni sem nú er ekki heimilt að versla í vínbúðum yrðu hins vegar markhópur sölukynninga og neysluáróðurs.
Úrval. Með þeim rökum sem að framan eru nefnd virðist einsýnt að vöruúrval muni minnka verulega og einkum á þeim stöðum þar sem verslanarekstur er erfiður sökum fámennis. Líklegt er að flestar verslanir, líka á stærri stöðum myndu takmarka framboð sitt við fáeinar tegundir sterkra eða veikra drykkja því óhagkvæmt er að liggja með birgðir af mörgum tegundum sem seljast dræmt. Þessu fylgir einnig að erfitt mun reynast að koma nýjum merkjum eða tegundum að og yrði það háð geðþótta og ágóðasjónarmiðum þeirra sem innkaupum ráða á hverjum stað.
Verð á áfengi er sett saman af innkaupsverði til framleiðanda/innflytjanda, skilagjaldi, áfengisgjaldi til ríkissjóðs og álagningu ÁTVR eða annars smásala. Aðeins álagningin er á valdi seljanda. Álagning ÁTVR er 18% á veika drykki en 12% á sterka. Álagningin ÁTVR stendur undir kostnaði við rekstur og hóflegum rekstrarhagnaði en hinar eiginlegum tekjur ríkisins eru af áfengisgjöldunum sem innheimt eru sem vörugjöld við innflutning eða framleiðslu. Álagningin ÁTVR er að því er ætla má lægri en almennt gerist í verslanarekstri hér á landi.
Allar líkur er á að kostnaður við dreifingu og sölu margra einkaaðila á áfengi verði til muna meiri en sá kostnaður er nú og ólíklegt að þeir muni sætta sig við óbreytta álagningu. Úrræð þeirra eru þau ein að hækka álagningu og/eða auka sölu. Markaður fyrir áfengissölu hér á landi er lokaður og takmarkaður. Aukinn ágóði af áfengissölu verður ekki til nema fyrir tilstilli hærra verðs eða meiri áfengisneyslu.“
Lesa má grein Indriða á vef hans.