Sorpu stjórnað af helmingaskiptaflokkunum

Sorpa er byggðasamfélag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu en það er alls ekki svo að íbúar á svæðinu ráði miklu um stjórn þessa félags, sem sinnir mikilverðri opinberri þjónustu. Stjórn félagsins raðast eftir valdaskiptingu innan sveitarfélaganna og nú vill svo til að stjórnina skipta fjórir kjörnir fulltrúar Framsóknar og tveir frá Sjálfstæðisflokknum.

Stjórn Sorpu í dag er svona:

xB Valdimar Víðisson fyrir Hafnarfjörð – formaður
xB Árelía Eydís Guðmundsdóttir fyrir Reykjavík – varaformaður
xB Aldís Stefánsdóttir fyrir Mosfellsbæ
xB Orri Vignir Hlöðversson fyrir Kópavog

xD Guðfinnur Sigurvinsson fyrir Garðabæ
xD Svana Helen Björnsdóttir fyrir Seltjarnarnes

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 29,1% atkvæða í þessum sveitarfélögum í kosningunum 2022 en er með 33,3% stjórnarmanna. Framsókn fékk 17,5% atkvæðanna en er með 66,7% stjórnarmanna. Kjósendur 54,4% atkvæða hafa engan fulltrúa.

Einhver gæti talið að það skipti minnstu hvaða flokki stjórnarmenn tilheyri, þarna eigi að raðast fólk með góða þekkingu á rekstri fyrirtækja og þá einkum í sorphirðu og endurvinnslu. En stjórnmálaflokkarnir líta ekki svo á, heldur ráðstafa stjórnarsetu í Sorpu sem pólitískum bitlingum. Þetta er því pólitískt kjörin stjórn. Gallinn er sá að almenningur kýs ekki í stjórnina og getur ekki látið stjórnina bera ábyrgð á mistökum, sóun og slæmum rekstri. Stjórnin er pólitískt kjörin í bakherbergjum meirihluta flokkanna í hverju sveitarfélagi.

Og ábyrgðin er engin. Þegar kaup á Gaju, gas- og jarðgerðarstöðinni, var ákveðin var Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar formaður og þegar skóflustunga var tekin 2018 var formaður Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vg. Í millitíðinni höfðu verið formenn Margrét Gauja Magnúsdóttir Samfylkingarkona í Reykjanesbæ, Bjarni Torfi Álfþórsson Sjálfstæðismaður af Seltjarnarnesi og Halldór Auðar Svansson Pírati í Reykjavík. Gaja kostaði um 7,5 milljarða króna á núvirði en hefur aldrei virkað almennilega. Stjórn Sorpu veðjaði á tækni sem var ófullburða og hafði hvergi reynst vel. Það er helst ástæða þess að færa á flokkun lífræns úrgangs inn á heimilin. Upphaflegt plan var að Gaja réði við að flokka lífræn efni út úr almennu heimilissorpi og það var ástæða þess að þessi lausn var keypt.

Á undanförnum árum hefur einnig komið fram að margt af því sem Sorpa segir íbúunum um endurvinnslu stenst ekki. Og hingað til hefur það ekki haft nein áhrif. Stjórnarfólkið sem ber ábyrgð á rekstri Sorpu gagnvart íbúunum axlar ekki ábyrgðina.

Myndin er úr kynningarefni Sorpu af fulltrúum sveitarfélaganna. Flokksmerkjum hefur verið bætt inn á myndina.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí