Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, og einn helsti sérfræðingur landsins í byggðarmálum, skrifar áhugaverðan pistil á Facebook um mál málanna þessa daga: stöðvun matvælaráðherra á hvalveiðum.
Við skulum bara leyfa Þóroddi að tala fyrir sig sjálfan:
SVONA TIL AÐ GERA YKKUR ÖLL BRJÁLUÐ…
Ég er einlægur stuðningmaður sjávarbyggða og sveitasamfélaga sem eiga allt undir því að búa til mat úr lifandi verum, og einlægur aðdáandi matvæla sem þannig verða til. Það verður bara að hafa það ef einhver ykkar verða brjáluð yfir því…
Ég borga með glöðu geði uppsett verð fyrir íslenskt lamb, íslenskan fisk og íslenskt grænmeti sem spretta úr íslenskri náttúru, viðhalda fjölbreyttum atvinnuháttum og halda uppi byggð í landinu öllu. Það verður bara að hafa það ef einhver önnur ykkar verða brjáluð yfir því…
Ég hef enga þolinmæði fyrir væli um að borgarbúar gætu keypt slíkan mat ódýrari frá erlendum láglaunasvæðum, þrátt fyrir kolefnisfótsporið af því að flytja matvæli milli heimsálfa. Það verður bara að hafa það ef einhver enn önnur ykkar verða brjáluð yfir því…
Ég hef hins vegar heldur enga samúð með íslenskum kjúklinga- og grísaverksmiðjum í borginni sem fara jafn ömurlega með skepnur og slíkar verksmiðjur erlendis, og eru auk þess helstu innflytjendur slíkrar ömurðar frá erlendum verksmiðjum. Það verður bara að hafa það ef … þið skiljið hvað ég er að fara.
Það grefur undan íslenskum landbúnaði að spyrða hann við svona ömurlega verksmiðjuframleiðslu og það gerir það líka miklu flóknara fyrir okkur hin að færa sannfærandi rök fyrir stuðningi við frábæran íslenskan landbúnað. Það verður bara að hafa það ef … þið vitið.
Ennþá minni þolinmæði hef ég samt með vælinu yfir því að að sportveiðar auðmanns í Reykjavík á hvölum hafi verið tímabundið stöðvaðar vegna ömurlegrar meðferðar hans á skynugum skepnum, og einhverju rugli um að það sé byggðapólitískt mál að hann fái að halda þeim áfram. Verið bara brjáluð yfir því, ég er að safna
Verst er samt þegar félagar mínir, stuðningsfólk sjávarbyggða og bændasamfélaga, réttlæta þessa ömurlegu aðfarir við hvalveiðar með því að sjómenn og bændur drepi líka lifandi skepnur. Þetta eru sannarlega ekki rök sem eru okkar málstað til framdráttar, í alvöru talað krakkar, viljum við stilla þessu þannig upp?
Auðvitað hef ég virkilega samúð með fólkinu fyrir sunnan sem missti vinnuna vegna þess að hvalveiðar voru skyndilega stöðvaðar, ekki síður en fólkinu sem missti vinnuna skyndilega vegna þess að kjúklingaverksmiðjan fór hraksmánarlega með kjúklinga. Skárra væri það nú, það væri ömurlegt að hafa ekki samúð með fólki sem missir skyndilega vinnuna, punktur.
Ég hef samt mesta samúð með fólkinu sem missti vinnuna hjá Hólmadrangi í liðinni viku, og miklu meiri áhyggjur af framtíð Hólmavíkur eftir að rækjuvinnslan lagði upp laupana en framtíð Reykjavíkur eða Akraness án hvalveiða, svona í stóra samhenginu.
Ókei, vildi bara segja þetta, ég rata út