„Ég er ekkert rosalega bjartsýn ef ég á að segja eins og er. Ef þetta er enn stopp á einu atriði, þá er maður ekkert voðalega bjartsýnn. Þetta verður vonandi ekki mjög langt verkfall. En ef þetta leysist ekki fyrir helgi þá er maður ekkert rosalega bjartsýnn.“
Þetta segir María Sigríður Kjartansdóttir í samtali við Samstöðina. María starfar í þjónustuveri Akraneskaupstaðar og er einn af ótal félagsmönnum Sameykis sem nú eru í verkfalli. María segir að allir þeir sem vinna í þjónustuverinu séu nú í verkfalli og það bitni fyrst og fremst á bæjarbúum.
„Við erum þrjár sem vinnum í þjónustuverinu, allar hjá Sameyki og allar í verkfalli. Þannig að það er bara lokað. Það er engin þjónusta. Þetta átti að vera þannig að sviðstjórinn svaraði í símann og svaraði erindum milli 11 og 12, en svo veit ég ekki hvernig það verður. Hvort það verði samþykkt að hann sé að ganga í þau störf,“ segir María.
Að hennar sögn þá eru starfsmenn á bæjarskrifstofum að fara fram á hærri laun, líkt og flestir sem fara í verkfall. María segir málið þó örlítið flóknara en svo. „Það er ákveðið klúður að það sé ekki sami samningur fyrir sama starf. Ég held að þetta séu mjög sanngjarnar kröfur. Eigum við ekki bara að segja að þetta einskorðist við klúður í samningunum á sínum tíma? Bæði af hálfu sambandsins og stéttarfélagsins. Það er fáránlegt að þar sem er jafnlaunastefna skuli vera tveir samningar í gangi, fyrir sama starf. Það meikar ekkert sens. Ekki er ég að fara að skipta um stéttafélag, til að fá hærri laun, þá missi ég mín réttindi,“ segir María.
Hún segir lítið um samstöðufundi, þar sem starfsmenn séu frekar fáir á Akranesi sem eru í verkfalli. „Við höfum alveg verið að hittast og heyrumst nánast á hverjum einasta degi. En við erum að vinna á litlum vinnustað þannig séð og það er stór hluti á undanþágu. En þetta bitnar mest á þjónustu við bæjarbúa, því þjónustuverið er bara úti. En þetta er eitthvað sem maður verður að gera. Það er bara þannig. Það er bara pínlegt að það sé komin upp þessi staða.“