Við erum öflug, við erum áhrifamikil og við munum skapa breytingar

Ójöfnuður 10. jún 2023

„Það er óréttlátt að svo mikill ójöfuður sé milli þeirra auðugu og þeirra sem berjast við draga fram lífið á of fáum krónum,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ á mótmælafundi á Austurvelli í dag. „Við verðum að standa saman, hækka röddina og krefjast aðgerða frá ríkisstjórninni. Við öll sem samfélagið byggjum verðum að taka þátt í að breyta stefnunni, skapa umhverfi sem hefur jöfnuð í fyrirrúmi – þar sem öll njóta.“

„Ójöfnuður má ekki þróast enn frekar. Þetta er viðfangsefni er allra, og við sem byggjum samfélagið þurfum að berjast fyrir því sem rétt er. Látum sjá okkur, Hækkum röddina og berjumst fyrir réttlæti og jöfnuði,“ sagði Þuríður. „Sköpum samfélag þar sem öll hafa jafnan og réttlátan aðgang að velsældinni sem boðuð er. Velsæld sem við öll eigum að njóta.“

„Við erum öflug, við erum áhrifamikil og við munum skapa breytingar. Stöndum saman krefjumst réttlætis og jöfnuðar. Rísum upp!“ endaði hún ræðuna sem lesa má hér.

„Hvað köllum við samfélag þar sem ríkisstjórninni finnst eðlilegt og sjálfsagt að embættismaður ríkisins fái að ráða hvort stéttarfélög megi fara í verkfall eða ekki? Því verkafólk skal ekki fá hærri laun er ríkinu finnst viðeigandi,“ spurði Þorvarður Bergmann Kjartansson, stjórnarmaður í VR og varaformaður ASÍ-Ung, í sinni ræðu.

„Því ríkið virðist vera búið að ákveða að þeir sem eru nú þegar að drukkna þurfi að vera fórnað á altari hagkerfisins. Því kannski ef við fórnum nógu mörgu verkafólki, leigjendum og öryrkjum, þá mun verðbólgan fara áður en hún fer að bíta elsku fjárfestana,“ hélt hann áfram.

„Ég kalla það misheppnað samfélag. Samfélag sem var hannað eftir höfði eignastéttar. Samfélag sem er fjandsamlegt öreigum – þar sem vinnandi fólk verður alltaf í öðru sæti,“ svaraði Þorvarður sjálfum sér.

„Það er kominn tími til að hætta láta segja okkur hvað við erum heppin. Það er kominn tími til að við rísum upp og gerum það alveg ljóst að þeir sem taka fjármagn fram yfir fólk eru ekki velkomin í þessu samfélagi,“ endaði hann ræðuna, sem lesa má hér.

Auk þeirra tveggja fluttu ræður Sæþór Benjamín Randalsson stjórnarmaður í Eflingu, Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Samtaka Leigjenda, Ásta Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. Fundarstjóri var Magga Stína.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí