Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins, segir galið að RÚV hafi fengið fyrrverandi aðstoðarmann Sigurðar Inga Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins, til að fjalla um Lindarhvolsmálið í kvöldfréttum í gær. Sigurjón vísar til þess að Benedikt Sigurðsson, nú fréttamaður á RÚV, starfaði lengi sem aðstoðarmaður Sigurðar Inga.
Sigurjón efast stórlega um hlutleysi hans og segir það brandara að maður með þennan feril hafi fengið það hlutverk að útskýra Lindarhvolsmálið fyrir landsmönnum. „Hvar í heiminum gæti þetta gerst? RÚV tekur Lindarhvolsmálið greinilega mjög föstum tökum eða þannig. Fyrrum aðstoðarmaður Sigurðar Inga formanns Framsóknar, Benedikt Sigurðsson „fréttamaður“, var fenginn til þess að skýra málið út, fyrir almenningi á RÚV, en Sigurður Ingi vildi halda skýrslunni leyndri. Hvaða brandari er það – hvar gæti það gerst annars staðar í heiminum? Eðlilega hafði Benedikt mestar áhyggjur af afdrifum setts ríkisendurskoðenda en ekki spillingunni á Íslandi,“ segir Sigurjón á Facebook.
Sigurjón virðist ekki einn á þessu máli. Hjörtur Hjartarson, stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu, veltir einnig fyrir sér fréttamati RÚV. Hann skrifar: „Í sjöfréttum RÚV þótti áhugaverðasti punkturinn við greinargerðina um Lindarhvol ályktun fréttamanna sjálfra um að nú myndi stjórnarandstaðan „gera sér mat úr þessu.“ – Orðalagið hefði getað verið frá fjármálaráðherra sjálfum, Bjarna Benediktssyni. Það er hlutverk og skylda stjórnarandstöðunnar að krefjast þess að farið verði ofan í saumana á þessari skýrslu. Reyndar hlutverk og skylda hvers einasta þingmanns, þótt þeir rísi ekki allir undir henni.“