Enn lækkar hlutfall séreignar hjá “einstaklingum með eina íbúð” á íslenskum húsnæðismarkaði og hefur hlutfallið ekki verið lægra frá upphafi mælinga. Samdrátturinn frá því í fyrra er 0.4 prósentustig og er mesti samdráttur í séreignarhlutfalli “einstaklinga með eina íbúð” frá árinu 2015. En það ár lækkaði það um 0.7 prósentustig miðað við árið á undan. Á þeim tíma stóð brask með fullnustueignir Íbúðalánasjóðs undir stjórn Eyglóar Harðardóttur þáverandi félagsmálaráðherra sem hæst.
Íbúðum á landinu hefur fjölgað um alls eitt þúsund og sex hundruð það sem af er ári. En hlutdeild einstaklinga sem eru að kaupa sína fyrstu eða einu eign hefur sjaldan verið lægri eða aðeins 30% af heildarframleiðslu ársins eru það aðeins um fjögur hundruð og áttatíu íbúðir.
Heildarsamdráttur í hlutfalli „einstaklinga með eina íbúð“ frá 2005 er orðin alls sextán prósent.
Séreign einstaklinga hríðfellur
Hefur þetta hlutfall séreignar hjá “einstaklingum með eina íbúð” verið að dragast saman allar götur frá það stóð sem hæst um síðustu aldamótum, en árið 2000 náði hlutfallið sjötíu og fjórum prósentum. Á milli áranna 2004 og 2005 í tíð Árna Magnússonar þáverandi félagsmálaráðherra urðu hinsvegar straumhvörf í eignarhaldi þegar hlutdeild “einstaklinga með tvær eða fleiri íbúðir” tók mikið stökk. Frá árinu 2004 hefur hlutdeild eignafólks stöðugt verið að aukast og er heildaraukningin á tímabilinu orðin þrjátíu prósent. Í dag eiga “einstaklingar með tvær eða fleiri íbúðir” alls þrjátíu og tvö þúsund íbúðir eða tuttugu og eitt prósent af öllu húsnæði á Íslandi.
Athygli vekur að hlutdeild “lögaðila með eina íbúð” hefur aukist mest eða tvöfaldast frá árinu 2005. Í dag eru rúm tvö prósent af öllu húsnæði á Íslandi í eigu „lögaðila með eina íbúð” eða alls þrjú þúsund og fjögur hundruð íbúðir. Hamfarirnar sem riðu yfir árið 2004 og leiddu til umpólunar í eignarhaldi virðist enn koma þess konar bröskurum kennitölur nokkuð vel, því alls tvö hundruð lögaðilar hafa keypt sína fyrstu íbúð undanfarna átján mánuði.
Braskarar safna íbúðum og ýta upp verði
Þessi mikla fyrirferð braskara á húsnæðismarkaði hefur hinsvegar slæmar afleiðingar ef marka má niðurstöður rannsóknar hjá háskólanum í Amsterdam sem unnin hefur verið fyrir hollensk stjórnvöld. Samkvæmt niðurstöðunum þá leiðir hátt hlutfall braskara á húsnæðismarkaði einungis til hærra verðs og jafnvel skorts. Kemur fram í rannsókninni sem ber nafnið (Investigate price effect on housing through purchases by private investors) að ef hlutfall fjárfesta eða braskara á húsnæðismarkaði fer yfir tuttugu prósent þá veldur það ósjálfbærum hækkunum á húsnæðisverði.
Frá árinu 2005 hefur hlutdeild fjárfesta og braskara á íslenskum húsnæðismarkaði hinsvegar verið tæplega sjötíu prósent. Viðlíka umpólun í eignarhaldi á húsnæðismarkaði hefur ekki sést áður í Evrópu né í N-Ameríku.
Víða á meginlandi Evrópu hefur séreign einstaklinga tekið hressilega við sér eftir eignatilfærsluna sem kom í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Bæði hefur hlutfallið séreignar á meginlandinu verið að aukast undanfarið en ekki síst ef miðað er við hlutfallið árið 2005. Í flestum löndum í V-Evrópu hefur það náð fyrri hæðum eða hækkað töluvert frá því sem var (OECD og Eurostat). Spánn og Stóra-Bretland eru einu löndin fyrir utan Ísland þar sem séreignarhlutfallið hefur lækkað eða um átta prósent í hvoru landi fyrir sig. Þau eru því ekki nema hálfdrættingar á við Ísland sem er með samdrátt upp á sextán prósent.
Framsóknarflokkurinn einkavæðir félagslegt húsnæði
Umrædd umpólun í eignarhaldi átti sér stað á sama tíma og sveitarfélög einkavæddu megnið af öllu félagslegu húsnæði. Fór einkavæðingin fram með aðstoð og að frumkvæði ríkisins ríkisins í gegnum Varasjóð Húsamála. Þegar sjóðurinn hætti störfum árið 2018 var hlutfall félagslegs húsnæðis á íslandi komið niður í 3.47%, sem er eitt allra lægsta hlutfall sem sést hefur í okkar heimshluta.
Varasjóður húsamála var stofnaður árið 2002 af Páli Péturssyni þáverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins og var fengið það hlutverk að aðstoða sveitarfélög við að draga úr og einkavæða félagslega húsnæðiskerfið. Það verkefni virðist hafa tekist vel því enn í dag eru íslendingar með eitt lægsta hlutfall af félagslegu húsnæði sem þekkist í Evrópu. Með því var akurinn plægður fyrir braskið sem við súpum seyðið af í dag.