Þórður Sverrisson, ráðgjafi hjá Stratagem, segir í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag að enskuvæðing íslensks samfélags sé ekki einungis heimskuleg út frá menningarlegu sjónarmiði heldur einnig út frá markaðsetningu. Hann segir það einfaldlega hlut af upplifun ferðamanns að heyra tungumál áfangstaðarins. Það sé hluti af sjarmanum að vera ferðamaður að heyra ítölsku á ítalskri Trattoriu eða dönsku á dönskum smurbrauðsstað.
Hér fyrir neðan má lesa pistil hans í heild sinni.
Í takti við vaxandi fjölda erlendra ferðamanna til Íslands undanfarin ár hefur umræða aukist um vægi enskunnar, hvort sem hún snýr að tungumálakunnáttu þeirra sem þjóna ferðafólki, eða merkingum (skiltum) fyrirtækja sem bjóða ferðafólki þjónustu af einhverju tagi. Margir hafa áhyggjur af íslenskunni í þessu sambandi, óttast hnignun hennar og að ensk tunga hafi áhrif á næmni landans fyrir fjölbreytileika íslenskunnar og tungumálið láti undan síga. Þetta eru fullkomlega eðlilegar áhyggjur, en það sem ekki hefur verið mikið rætt er hversu röng þessi þróun er út frá markaðslegu sjónarmiði.
Tveir þeirra lykilþátta sem skapa upplifun ferðafólks (viðskiptavina) eru ásýnd, umgjörð og yfirbragð þess staðar sem heimsóttur er, og sú persónulega þjónusta sem ferðalangur fær. Grundvallaratriði til að skapa ánægjulega upplifun viðskiptavina. Skoðum þetta nánar.
Flestir vita að enska er það tungumál sem fólk grípur til ef það er statt utan síns heimalands eða á málsvæði sem er því framandi. Stærstur hluti ferðamanna á erlendri grundu reiðir sig á að geta notað ensku til að panta sér mat eða spyrja til vegar. Enskan er hið alþjóðlega tungumál samskipta þó að vissulega sé ólíkt hversu þjál sú tunga er þjóðum.
En það sem skiptir mestu máli hér út frá markaðshugsun er að það á að vera val ferðamannsins hvort hann vilji tjá sig á enskunni (eða annarri tungu ef því er að skipta) eða reyna við það tungumál sem ríkir í því landi sem hann er staddur í. Hluti upplifunar við ferðir á framandi slóðir er að fá tækifæri til að „þreifa“ sem mest á menningu og mannlífi þess lands sem viðkomandi er staddur í. Að heyra ítölsku á ítalskri Trattoriu eða dönsku á dönskum smurbrauðsstað er hluti þess sjarma að vera ferðamaður og fá aðra upplifun en í eigin heimabyggð. Leiða má líkur að því að þeir ferðalangar sem heimsækja Ísland líti á það sem hluta af ánægjulegri íslenskri upplifun að sjá merkingar á þessu „sérkennilega“ máli og heyra mælt á íslensku, þó ekki sé nema með einfaldri kveðju þegar tekið er á móti fólki. Þó því sé síðan fylgt eftir með enskunni.
Nú er það staðreynd að íslensk ferðaþjónusta er að stórum hluta mönnuð starfsfólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Það breytir því ekki að það á að vera metnaður þeirra sem reka ferðaþjónustufyrirtækin að þjónustufólk kunni einföldustu hugtökin í samskiptum, ekki síst fyrir þá útlendinga sem vilja heyra tungumálið og spreyta sig á að biðja um reikninginn á íslensku. Hluti af upplifuninni, og því markaðslega skynsamlegt.