Elliði kallar eftir stjórnarslitum og kosningum – Enn eitt merki um að ríkisstjórnin er á síðustu metrunum

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss og Sjálfstæðismaður, hefur í huga sumra verið meðal helstu vonarstjarna flokksins. Hann kallar nú eftir tafarlausum stjórnarslitum í aðsendum pistli sem hann birtir á Viljanum. Fyrirsögn pistilsins er einfaldlega: „Ég styð ekki lengur þessa ríkisstjórn“. Elliði segist hafa fengið sig fullsaddan af samstarfi við VG og kallar eftir kosningum.

Elliði byrjar á því að gera lítið úr vaxandi umræðum um Sjálfstæðisflokkurinn klofni enn eina ferðina. Hann segir þó ríkisstjórnina ómögulega. „Ég var stuðningsmaður núverandi samstarfs þegar fyrst var til þess stofnað. Ég vildi ró og yfirvegun og svigrúm til að leiða í jörð margt sem þá klauf þjóðina. Sumt af því tókst. Það breytir því ekki að ég er í dag mjög ósáttur. Svo mikið sem ég styð Sjálfstæðisflokkinn og gildi hans þá styð ég ekki þessa ríkisstjórn. Ástæðan fyrir því er einföld. Ástæðan er sú að þessi ríkisstjórn, vinnulag hennar og áherslur, eru fjarri þeim gildum sem við mörg innan Sjálfstæðisflokksins viljum vinna að. Ég mun ekki styðja þessa ríkisstjórn nema þar verði breyting á,“ segir Elliði.

Svo virðist sem það sé ekki ýmis hneykslismál ríkisstjórnarinnar valdi þessari skoðun Elliða, heldur óþol á Svandísi Svavarsdóttur. „Núverandi ríkisstjórn er sennilega sér til húðar gengin. VG hafa verið vegin og metin og léttvæg fundin. Framganga Svandísar Svavarsdóttur tók af allan vafa um það. Framsóknarflokkurinn er sannarlega stjórntækur, þótt samstarf við hann sé dýru gjaldi greiddur. Sumir ráðherra flokksins opna vart munninn án þess að það kosti okkur skattgreiðendur hvítuna úr augunum. Ég efast samt ekki um að þessir tveir kjölfestuflokkar gætu með nýju samstarfsfólki myndað ríkisstjórn um framfarir frekar en kyrrstöðu og afturhald.“

Elliði gengur svo langt að kalla eftir kosningum sem fyrst. „Krafan er skýr. Annaðhvort verður að verða breyting á áherslum þessarar ríkisstjórnar eða að Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir því að lífdagar hennar eru taldir. Komi til þess, óttumst við ekki kosningar. Gildi okkar eru skýr og ætíð klár þótt sannarlega aðlagist þau tíðarandanum. Á forsendum þeirra gilda, og eingöngu á þeim forsendum, nær flokkurinn þeim styrk sem við teljum hann þurfa til að tryggja áframhaldandi velmegun hins harðduglega fólks sem þetta land byggir.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí