Það er gríðarlegur munur á verðbreytingum eftir undirflokkum neysluvísitölunnar samkvæmt Hagstofunni. Það sem keyrir verðbólguna niður er annars vegar lækkun á fasteignaverði, sem er hluti neysluvístölunnar á Íslandi en óvíða annars staðar, og hins vegar útsölur á fötum, húsgögnum og húsbúnaði. Það sem hækkar mest er hins vegar ferðir og ferðaþjónusta, rafmagn og hiti og greidd húsaleiga. Og maturinn fylgir þar á eftir.
Verðbólga hjá leigjendum, yngra fólki og tekjulægra
Það er því of snemmt að tilkynna andlát verðbólgunnar. Mikil lækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu kom flestum á óvart enda enn sár skortur á húsnæði. Vaxtahækkanir Seðlabankans og þrenging að lánamöguleikum fólks með miðlungstekjur og þaðan af lægri hefur hins vegar þurrkað upp kaupendamarkaðinn. Þau sem kaupa íbúðir í dag er helst vel sett fólk og þau sem kaupa húsnæði til að setja á leigumarkaðinn. Þar er enn mikil eftirspurnarverðbólga, leiguverð heldur áfram að hækka umfram almennt verðlag. Það á eftir að koma í ljós hvert þessi sérkennilega staða leiðir, hvort Seðlabankanum takist að berja svo niður eftirspurn eftir íbúðum til kaups að verðið hækki ekki eða hvort þörf fólks fyrir að búa einhvers staðar sprengi upp verðið, fyrst á leigumarkaði og í framhaldinu á kaupmarkaði þegar eignafólk og leigusalar sjá að þau ráði við hærra kaupverð með því einfaldlega að velta auknum kostnaði yfir á leigjendur.
Sem kunnugt er hafa fá lönd farið að dæmi Íslendinga og sett eignarverð inn í mælingar á neysluverði. Víðast mælir neysluvísitala aðeins neyslu, ekki eignarverð. Þegar neysluvísitalan hækkar á Íslandi vegna hækkunar á íbúðaverði eykur það ekki kostnað þeirra sem þegar hafa keypt og búa í eigin húsnæði. Þetta er því mæling á allt öðrum þáttum en neyslu og gerir fátt annað en að rugla mælinguna og viðbrögð stjórnvalda við verðbólgunni. Fókus Seðlabankans er að berja niður verðbólguna með því að frysta húsnæðismarkaðinn sem þó hefur ekki beint áhrif á verðbólguna sjálfa, aðeins mælinn sem bankinn starir á. Það getur gerst, og má vera að gerast, að bankanum takist að færa til vísinn á mælinum án þess að hin raunverulega neysluverðbólga sé að lækka.
Og skaðinn af þessari stefnu getur verið umtalsverður. Seðlabankinn vill frysta íbúðamarkaðinn sem leiðir til verðlækkunar á íbúðum sem aftur dregur úr framboði á húsnæði í samfélagi sem þjáist vegna húsnæðisskorts. Það spenni aftur upp leiguverð og ýtir hinum efnaminni og tekjulægri út á jaðar húsnæðismarkaðar, út í iðnaðarhverfin og ofan í kolakjallarana. Það má þegar sjá merki þess að hin efnaminni búi þrengra og hin yngri búi lengur í foreldrahúsum. Og hækkun húsaleigu grefur undan lífskjörum hinna tekjuminni. Það birtist síðan í auknum kaupkröfum og átökum á vinnumarkaði.
Á meðan Seðlabankinn fagnar því að vísirinn á mælinum er hættur að rísa og farinn að lækka er samfélagið handan við mælinn að rifna af vaxandi óréttlæti húsnæðiskerfisins sem bæði stækkar gjánna milli kynslóða og milli stétta.
Verðbólga í ofþaninni ferðaþjónustu
Annað sem er athygli vert í þessari mælingu Hagstofunnar er að verðbólgan geisar í ferðaþjónustunni. Ef við tökum verðbólguhraðann milli mánaða þá jafngildir hann 15,4% ársverðbólgu á hótelum og veitingastöðum og 26,5% í ferðalögum og flutningum. Það er auðvitað háannatíminn í ferðaþjónustunni og allt skrúfað upp, ekki síst verðið. En það er ekki líklegt að þessar hækkanir gangi allar til baka þegar um hægist.
Það má líka sjá merki þess í hækkun launavísitölunnar að hagkerfið er á yfirsnúningi. Hagstofan mælir 1,1% hækkun launa án þess að nokkar samningshækkanir hafi áhrif á laun í júní. Þetta er hækkun sem jafngildir 14% árshækkun og sýnir tvennt. Það er eftirspurn eftir vinnuafli og lítið atvinnuleysi og þau sem geta þrýst á um launahækkanir til að mæta kjaraskerðingu verðbólgu undanfarinnar missera geta gert það. Það er því nokkurt launaskrið.
Síðustu tólf mánuði hefur launavísitalan hækkað um 10,9% á meðan að neysluvísitalan hefur hækkað um 7,6%. Á blaði sýnir það að kaupmáttur hefur vaxið þrátt fyrir verðbólguna. En sá kaupmáttur dreifist ójafnt. Þau sem geta sótt launahækkanir utan samninga og búa í eigin húsnæði njóta aukins kaupmáttar á meðan þau sem fá borgað samkvæmt taxta og búa í leiguhúsnæði lifa við kjaraskerðingu. Og sama má segja um þau sem keyptu nýlega og skulda mikið, vaxtahækkanir éta upp kaupmáttinn.
Þessi staða hefur verið kölluð lífskjarakrísa í Evrópu, þegar verðbólgan grefur mest undan lífskjörum hinna efnaminni og tekjulægri. Og víðast miðast aðgerðir ríkisstjórna að því að leiðrétta þessa skekkju. En ekki hér. Hér er lífskjaraskerðingin ekki talin óvinurinn heldur verðbólgan, sem er vissulega kveikjan en ekki ástæðan fyrir skerðingu lífskjara efnaminni hópa. Ástæðan fyrir vanda þeirra er ójöfnuður, sem hérlendis birtist einna helst á húsnæðismarkaði. En íslensk stjórnvöld ráðast ekki að honum heldur mælinum hjá Hagstofunni sem segir hækkun eignaverðs vera verðbólgu. Og með því að einblína á vísinn á þeim mæli þá auka stjórnvöld í raun við vandann, magna upp ójöfnuðinn sem rammskakkt húsnæðiskerfið skapar.