Hæstiréttur bannar Biden að fella niður námslán

Íhaldsmeirihlutinn í Hæstarétti Bandaríkjanna heldur áfram að stöðva umbætur í Bandaríkjunum á sama tíma og hann vindur ofan af sigrum mannréttindabaráttu síðustu aldar. Nú hefur íhaldsmeirihlutinn stöðvað ráðagerðir ríkisstjórnar Joe Biden að fella niður námslán upp á 55 þúsund milljarða íslenskra króna.
Íhaldsmeirihlutinn er sköpunarverk Donald Trump. Í forsetatíð sinni náði Trump ekki aðeins að tryggja íhaldinu meirihluta í réttinum heldur afgerandi meirihluta. Sex af níu dómurum eru í raun sótsvart íhald sem sættir sig illa við þær samfélagsbreytingar sem náðust í gegn í mannréttindabaráttu svartra, kvenna, samkynhneigðra og annarra hópa á seinni hluta síðustu aldar. Íhaldsmennirnir hafa þegar fellt Roe vs. Wade úr gildi, sem tryggði konum rétt á þungunarrofi. Og nú í vikunni komst rétturinn að því að óheimilt væri að nota jákvæða mismunun til að tryggja svörtum og öðrum minnihlutahópa aðgengi að skólum.

Skipan Trump á dómurum mun hafa áhrif næstu áratugina. Dómararnir sem hann skipaði gætu starfað næstu tvo, þrjá eða jafnvel fjóra áratugi. Flestir þeirra eru mun yngri en þeir þrír dómarar sem kalla mætti frjálslynda.

Nám er dýrt í Bandaríkjunum. Þau sem ekki eru af auðugu fólki þurfa að taka lán til að komast til mennta og koma stórskuldug frá námi. Og þó menntun opni oft leið að störfum sem greiða hærri laun, eru þau sjaldnast svo hátt launuð að það dugi til að greiða niður námslánin. Ungt fólk á líka erfitt með að fá húsnæðislán vegna skuldastöðunnar. Lánin eru því eins og myllusteinn um hálsinn á ungu fólki, sem ekki er komið af auðugu fólki. Þetta er harmur fyrir þau sem í þessu lenda en líka skaðlegt þjóðfélaginu öllu, vinnur gegn félagslegum hreyfanleika og skerðir möguleika fólk til að bæta efnahagslega stöðu sína með menntun. Og dregur því úr vilja fólks til mennta sig til lengri tíma.
Með sífellt hærri vöxtum ofan á hækkun skólagjalda og annars kostnaðar við nám verða neikvæð áhrif þessa kerfis enn eitraðri.

Margir hafa bent á að eina leiðin út úr þessari stöðu sé skuldaniðurfelling. Bernie Sanders lagði áherslu á þetta í forkosningum demókrata fyrir kosningarnar 2016 og samtök hafa verið stofnuð utan um þessa kröfu um öll Bandaríkin. Og svo til öll mannréttindasamtök landsins taka undir hana.

Joe Biden byggði tilskipun sína á svokölluðum HEROES lögum – the Health and Economic Recovery Omnibus Emergency Solutions Act – frá 2003, sem gáfu forseta heimild til viðbragða til að mæta þjóðhagslegri ógn. Það var niðurstaða sex manna meirihluta íhaldsmanna í Hæstarétti að lögin veiti forsetanum ekki umboð til að gefa út tilskipun til niðurfellingar námslána. Biden sagðist ósammála dómnum og reyndi að sannfæra stuðningsmenn sína, núverandi og fyrrverandi námsfólk um að hann myndi með einhverjum hætti ná þessu réttlætismáli fram.

Elena Kagan, ein hinna þriggja dómara í minnihlutanum, las upp sína niðurstöðu við dómsuppkvaðningu og sagði að íhaldsmeirihlutinn væri með úrskurði sínum að fara gegn aðskilnaði ríkisvaldsins í Bandaríkjunum, að dómararnir voru að beita valdi sínu til að koma í veg fyrir að framkvæmdavaldið veitti 43 milljónum Bandaríkjamanna aðstoð til að komast af, til að eignast betra líf.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí