Samkvæmt nýrri rannsókn birtist í gær væru hitabylgjur sumarsins, sem mörg lönd Evrópu og víðar glíma nú við, nánast ómögulegar ef ekki væri fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum. Rannsóknin var gerð af alþjóðlegum rannsóknarhópi vísindamanna sem nefnist World Weather Attribution.
Rannsóknin kemst meðal annars að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa gert hitann í Evrópu í sumar að meðaltali 2,5 gráðum heitari en hann hefði annars verið. Í Bandaríkjunum er hitinn að meðaltali 2 gráðum heitari en hann hefði annars verið. Það er að segja, ef ekki væri fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum. Í Kína er hitinn að meðaltali 1 gráðu meiri.
Rannsóknin sýnir einnig fram á að hitastigið í Norður-Ameríku, Evrópu og Kína hefur farið hækkandi síðustu ár, vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, og því er methitastigið sem löndin glíma við núna ekkert sem ætti að koma á óvart.
Vísindamennirnir, sem standa að baki rannsókninni, segja að slíkur methiti sé einungis að fara að aukast, ef ekki verður gripið í taumana og dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hitabylgjurnar eiga eftir að verða verri, og vara í lengri tíma.
Rannsóknin hefur ekki enn farið í gegnum ritrýni, en Sebastian Mernild, danskur loftslagsvísindamaður, segir í samtali við DR að hann efist ekki um niðurstöður rannsóknarinnar. Jesper Theilgard veðurfræðingur og fyrrum veðurfréttamaður DR tekur í sama streng og segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart.
Mernild fagnar rannsókninni og segir að loksins sé kominn vísindalegur grundvöllur til að geta haldið því fram að gríðarlegar hitabylgjur sumarsins orsakist fyrst og fremst af loftslagsbreytingum af mannavöldum – eitthvað sem vísindamenn hafa verið hikandi við að slá á fast hingað til.
Rannsóknina má lesa hér: Extreme heat in North America, Europe and China in July 2023 made much more likely by climate change