Fjögur gefa kost á sér í stjórn Íslandsbanka auk þeirra sem BankasýslaN og tilnefningarnefnd Íslandsbanka mæltu með. Hluthafar geta því hreinsað út alla stjórnarmenn en fjórir af sjö stjórnarmönnum bjóða sg fram til áframhaldandi starfa.
Finnur Árnason stjórnarformaður, Guðrún Þorgeirsdóttir, varaformaður stjórnar, og Ari Daníelsson stjórnarmaður eru ekki í framboð. Hugmynd Bankasýslunnar og tilnefningarnefndarinnar er sú að með því axli stjórnin ábyrgð á sölu bankans á eigin bréfum. Finnur og Guðrún sem formaður og varaformaður og Ari fyrir að hafa keypt bréf í útboðinu.
Lagt var til að fjórir stjórnarmenn héldu áfram: Anna Þórðardóttir, Agnar Tómas Möller, Frosti Ólafsson og Valgerður Skúladóttir. Þeim til viðbótar mælir Bankasýslan og tilnefningarnefndin með að Haukur Örn Birgisson, Linda Jónsdóttir og Stefán Pétursson komi inn í stjórnina og að Linda verði formaður stjórnar.
Linda Jónsdóttir er framkvæmdastjóri rekstrar COO hjá Marel. Haukur Örn Birgisson er lögmaður og Stefán Pétursson er fjármálastjóri lyfjaþróunarfyrirtækisins EpiEndo Pharmaceuticals. Þau eru því úr líku móti og núverandi stjórnarmenn.
Nú er komið fram að fjögur önnur bjóða sig fram til stjórnar. Ásgeir Brynjar Torfason, Elín Jóhannesdóttir, Helga Hlín Hákonardóttir og Frosti Sigurjónsson bjóða sig fram án tilnefningar. Elín starfar í sérverkefnum fyrir Vigur fjárfestingu og Helga Hlín er lögmaður. Ásgeir Brynjar er einn mest áberandi gagnrýnandi bankakerfisins eins og Frosti, sem er fyrrum þingmaður Framsóknar.
Möguleikar þessa fólks eru ekki miklir. Bankasýslan fer með 42% hlut ríkisins og þar með líklega meira en helming atkvæða þeirra sem mæta til aðalfundar.