Hollustan fyrst og fremst við flokkinn

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lætur vart sjá sig á opinberum vettvangi án þess að bera fálkamerki Sjálfstæðisflokksins í jakkaboðungnum. Það sama má segja um flesta ráðherra og þingmenn flokksins. En hvað táknar þetta? Hvað er Bjarni og valdafólkið í Sjálfstæðisflokknum að segja okkur?

Emmanuel Macron forseti Frakklands ber oftast litla orðu í jakkaboðungnum. Þetta er hversdags útgáfan af heiðurorðu Frakklands, Ordre national de la Légion d’honneur, sem er einskonar fálkaorða þeirra Frakka. En eldri, þekktari og eftirsóttari. Við hátíðarkvöldverði ber Macron stærri útgáfuna. Og þetta er ekki sérviska í Macron. Valdafólk í Frakklandi ber gjarnan þessa orðu sem sönnun um verðleika sína, að tekið hefði verið eftir snilld þess, gáfum, þori, mannkostum eða seiglu.

Eins og annað stjórnmálafólk í Bandaríkjunum lætur Joe Biden ekki sjá sig án þess að hafa lítinn bandarískan fána í jakkaboðungnum. Þetta er nánast inntökuskilyrði í stjórnmál vestra, að flagga fyrir föðurlandinu á jakkanum sínum, landi hinna frjálsu og heimili hinna hugrökku. Það yrði líklega stórfrétt af Biden birtist fánalaus við opinber störf, yrði túlkað sem nokkurs konar landráð.

Rishi Sunak gengur ekki með svona tákn á sér. Fyrir því er engin hefð í Bretlandi. Boris Johnson lét stundum sjá sig með fána Bretlands og Úkraínu samtengda stuttu eftir innrás Rússa, en slíkt er fátítt. Og forsætisráðherrar Bretlands hafa borið rautt blóm The Royal British Legion þegar það er selt til að afla fjár til stuðnings særðra hermanna. En annars mæta forsætisráðherrar og stjórnmálamenn Bretlands yfirleitt ómerktir til leiks.

Og það sama á við um stjórnmálafólk á Norðurlöndum, í Þýskalandi og víðast um okkar álfu. Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu og formaður Bræðralags Ítalíu skreytir sig hvorki með fána landsins né merki flokksins, sem á rætur í fasistaflokki Mússólíni, sem ekki var spar á táknin. Það er til lítils siðs í Evrópu að ráðafólk sýni hollustu sína gagnvart tilteknum hópum, flaggi þjóðfánum og orðum og enn síður flokkstáknum nema þegar valdafólkið er ekki í vinnunni heldur í kosningabaráttu fyrir sinn flokk.

Undantekningin á þessu er Sjálfstæðisflokksfólk á Íslandi. Það lætur yfirleitt hvergi sjá sig án þess að vera merkt sínum flokki, með tákn þess að það þjóni Sjálfstæðisflokknum fyrst og síðast. Að samþykktir landsfundar flokksins séu æðri öðrum ákvörðunum í landinu.

Guðrún Hafsteinsdóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, birtist svona í Dagmálum Moggans í morgun.

Hér eru Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra og Áslaug Arna Sigbjörnsdóttir með sína fálka.

Undantekningin frá reglunni er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sem svo til aldrei lætur sjá sig með fálkann.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí