Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf út vísitölu húsaleigu í dag sýndi hún 11,2% hækkun undanfarna tólf mánuði. Hækkunin er 1% í síðasta mánuði, sem jafngildir 12,7% verðhækkunarhraða á ársgrunni.
Vandinn við þessa mælingu er að hún byggir á þinglýstum leigusamningum sem nú orðið er enn minni hluti samninga en áður var. Þessi hækkun er því aðeins vísbending um þróun leiguverðs og ekki endilega góð sem slík. Með breytingum á lögum um húsnæðisbætur um ármótin var hætt að gera kröfu um þinglýsingu en HMS þess í stað falið að skrá samninga rafrænt. Inn í þá skráningu koma hins vegar of fáir samningar svo hægt sé að byggja vísitölu leiguverðs á þeim. Stjórnvöld sigla því í myrkri varðandi stöðuna á leigumarkaði.
En miðað við þá vísitölu sem stjórnvöld bjóða upp heldur húsaleiga áfram að hækka umfram verðlag. Grafið hér að neðan sýnir þróun vísitölu húsaleigu og neysluvísitölu frá ársbyrjun 2011. Af því má lesa hvaða áhrif túristasprengjan á eftirhrunsárunum og getuleysi stjórnvalda til að mæta henni með aðgerðum í húsnæðismálum hefur haft á kjör leigjenda
Þarna má sjá að 70 fermetra íbúð sem leigð var út á 110 þús. kr. í ársbyrjun 2011 myndi vera leigð út á 180 þús. kr. í dag ef leigan hefði haldið verðgildi sínu. Í reynd er íbúðin hins vegar leigð út á 268 þús. kr. eða um 88 þús. kr. umfram almenna verðþróun. Það er sá hlutur sem leigusalinn tekur í dag umfram það sem hann gerði í ársbyrjun 2011. Og. auðvitað sá hlutur sem leigjandinn verður að borga umfram það sem áður var. Líta má á þetta sem tollinn sem leigjandinn ber vegna stjórnleysis í húsnæðismálum.