Leigjendur í Bandaríkjunum borga að jafnaði þrjátíu prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu. Hefur hlutfallið hækkað um tæp þrjú prósentustig frá árinu 2019. Greiningafyrirtækið Moody’s segir þetta áður óséðar aðstæður fyrir bandarísk heimili og birtingarmynd af versnandi kjörum þeirra , aldrei áður hefur hlutfall húsaleigu af ráðstöfunartekjum farið yfir þrjátíu prósent.
Ráðuneyti húsnæðis og skipulagsmála í Bandaríkjunum metur húsnæðiskostnað yfir þrjátíu prósent af ráðstöfunartekjum vera íþyngjandi, að hann geti valdið efnislegum skorti og þar af leiðandi fátækt. „Þessi þróun hefur staðið yfir í áratugi” segir Martha Galves framkvæmdastjóri hjá háskólanum í New York, „frá því á áttunda áratugnum hefur húsaleiga verið að hækka umfram laun og fyrir lágtekjufólk á leigumarkaði er íþyngjandi húsnæðisbyrði orðið daglegt brauð”. Hlutfall húsaleigu af launum var aðeins tuttugu og tvö prósent þegar mælingar hófust árið 1999.
Lu Chen forstöðumaður hjá Moody´s segir hlutfall leigu af launum hafi aukist af því að laun hafi ekki þróast í takt við leigu á undanförnum áratugum. Eftir að takmörkunum á leigumarkaði var lyft eftir covid-heimsfaraldurinn hefur hækkun húsaleigu tekið stökk. Margir leigusalar í Bandaríkjunum tóku upp á því að lækka leigu tímabundið í miðjum faraldrinum, en hafa náð þeim lækkunum til baka og gott betur undanfarið.
Þrjátíu og eitt prósent heimila í Bandaríkjunum voru á leigumarkaði samkvæmt rannsókn hagstofu Bandaríkjanna frá árinu 2019 og sextíu og fjögur prósent heimila í séreign, þ. e. í eigu íbúanna sjálfra. Séreign á húsnæðismarkaði þar í landi hefur vaxið stöðugt frá eftirhrunsárunum 2015/2016 ef undanskilið er tímabilið í upphafi heimsfaraldursins 2020.
Mikill ójöfnuður er á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum þar sem meirihluti innflytjenda fer nauðugur á leigumarkaðinn en á móti er aðeins fjórðungur hvítra og innfæddra á leigumarkaði. Þetta kemur fram í niðurstöðum PEW rannsóknastofnunarinnar sem rannsakar félagslega stöðu almennings þar í landi. Því tengt þá benda rannsóknir Brookings stofnunarinnar til þess að útlendingaandúð skýri að mestu leyti tregðu stjórnvalda til að verja leigjendur og skapa jafnræði á húsnæðismarkaði.
Í samanburði við Ísland þá greiða leigjendur á Íslandi að jafnaði fjörutíu og fjögur prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu, á meðan hlutfallið er þrjátíu prósent í Bandaríkjunum. Séreign á húsnæði á Íslandi hefur dregist látlaust saman frá aldamótum, en á undanförnum árum hefur hún aukist í Bandaríkjunum. Viðmið fyrir Íþyngjandi húsnæðisbyrði á Íslandi er fjörutíu prósent af ráðstöfunartekjum, en í Bandaríkjunum er línan dregin við þrjátíu prósent.