Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti á dögunum tillögu um að banna akstur hópbifreiða og annarra stórra ökutæki innan miðbæjarins og hluta Vesturbæjar. Nú virðast fleiri íbúar í Reykjavík einnig vilja að rútur verði bannaðar í hverfinu þeirra. Nánar tiltekið þá eru það íbúar í Laugarneshverfi sem kalla eftir því að rútur verði bannað í þeirra nágrenni. Í það minnsta í næsta nágrenni við leikskóla og grunskóla.
Innan Facebook-hóps íbúa í Laugarneshverfi er kallað eftir þessu. „Rútur eiga það til að bruna í gegnum Gullteiginn vel yfir hámarkshraða, meðal annars framhjá leikskólanum Hofi og Laugarnesskóla, á leið til og frá Grand hóteli. Það framtak borgarinnar að banna akstur hópbifreiða um stóran hluta miðbæjar og vesturbæjar er til fyrirmyndar. Hvernig förum við í Laugarnesinu að því að fá sömu breytingar í gegn – og aukum þannig umferðaröryggi og lífsgæði? Eru einhverjir borgarfulltrúar í hverfinu sem geta talað okkar máli?,“ spyr kona nokkur innan hópsins.