Katrín meðal haukanna í Nató

Við upphaf Nató-fundarins í Vilníus sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við íslenska blaðamenn að Ísland væri með eigin afstöðu varðandi inngöngu Úkraínu í bandalagið. Hún sagðist hafa skilning á því að Úkraína gangi ekki í Nató á þessum fundi, en að íslenskt stjórnvöld vildu skýrari skilaboð en eru í Búkarest-samþykktinni frá 2008.

Í Búkarest lýstu leiðtogar Nató-ríkjanna yfir ánægju með áhuga Úkraínu og Georgíu fyrir aðild og sögðu að þessi lönd ættu heima í bandalaginu. En síðan eru liðin fimmtán ár og hvorugt ríkið er í Nató. Rússneski herinn réðst inn í bæði ríkin eftir 2008. Og hvorugt uppfyllir skilyrði fyrir aðild, sem eru meðal annars þau að engar landamæraerjur séu við önnur lönd og að ekki sé yfirstandandi stríð sem Nató-ríkin myndu þá dragast inn í. Auk þess eru kröfur um að löndin séu lýðræðisleg og þar sé réttarríki, sem mörg núverandi Nató-ríki eiga æ erfiðara með að uppfylla, svo sem Tyrkland, Pólland og Ungverjaland, og vafasamt er að Úkraína uppfylli.

Afstaða Nató-ríkjanna gagnvart aðildarumsókn Úkraínu eru ólík. Eystrasaltsríkin hafa gengið lengst, vilja að dagsetning sé gefin. Því hafna Bandaríkin, Þýskaland og stærri löndin og þau sem eru í vestrinu. Sú afstaða byggir á að innganga Úkraínu inn í Nató kveiki um leið á þriðju heimsstyrjöldinni, ef hún er þá ekki þegar hafin. Við inngöngu Úkraínu væru öll Nató-ríkin komin í stríð við Rússa. Og ef þau réðust á Rússland er ómögulegt að spá um afleiðingarinnar. Afstaða landa utan Nató og vanalegra fylgitungsla (Japan, Suður-Kórea, Ástralía, Nýja-Sjáland) til stríðsins í Úkraínu hefur alls ekki verið í anda Vesturveldanna. Þótt fá lönd hafi lýst yfir stuðningi við Rússa þá hafa þau heldur ekki stutt Nató og Bandaríkin í stríðinu. Og ef Nató lýsir í raun yfir stríði við Rússa myndi heimsmyndin breytast hratt.

Katrín og íslensk stjórnvöld eru því nær hinum herskárri Eystrasaltslöndum en hinum varfærnari stórþjóðum í vestrinu.

Í nýrri könnun Nató um afstöðu almennings til Úkraínustríðsins kom fram að 89% Íslendinga studdu afgerandi eða nokkuð að stjórnvöld héldu áfram stuðningi við Úkraínu í stríðinu. Íslendingar voru efstir á listanum, ofar en Finnar, nágrannar Rússa. Sama hlutfall var 65% meðal Bandaríkjamanna og 56% meðal Þjóðverja. Ítalír og Frakkar voru á svipuðum slóðum og Þjóðverjar. Leiðtogar þessara ríkja eru því ekki með að baki sér jafn afgerandi afstöðu almennings í sínum löndum.

Afstaða Eystrasaltslandanna var ekki jafn skýr, enda er stór rússneskumælandi minnihluti í þessum löndum sem hefur upplifað afleiðingar af vaxandi rússaandúð í sínum löndum og Evrópu yfirleitt. Í Litháen sögðust 78% landsmanna vilja áframhaldandi stuðning við stríðið en þar er 7% landsmanna rússneskumælandi. Jafnvel þótt við drögum þá frá nær hlutfallið, 84%, ekki að toppa Íslendinga. Í Eistlandi studdu 74% stríðið en þar er 30% rússneskumælandi og í Lettlandi sögðust 71% vilja áframhaldandi stuðning við stríðið en þar eru 34% rússneskumælandi. Það dugar því ekki að draga rússneskumælandi frá í þessum löndum, einhver þeirra styðja Úkraínu ef við gerum ráð fyrir að allir aðrir geri það.

En stuðningurinn almennings á Íslandi er miklu meiri við Úkraínu í stríðið en í þessum nágrannalöndum Rússlands og Úkraínu. Stuðningurinn er þessi í þeim löndum sem eiga landamæri að þessum tveimur löndum: 84% Finna vilja áframhaldandi stuðning við Úkraínu í stríðinu, 78% Litháa og Norðmanna, 74% Eista, 71% Letta, 70% Pólverja, 57% Rúmena, 49% Ungverja og 43% Slóvaka.

Það er því kannski ekki að undra að Katrín Jakobsdóttir sé meðal helstu haukanna á Nató-fundinum, ef við gerum ráð fyrir að þar komi stjórnmálafólk sem helst sé að tala við eigin kjósendur.

Hér má sjá spjall íslensku blaðamannanna við Katrínu fyrir fundinn. Þeir spurðu um inngöngu Svía og síðan Úkraínumanna en sneru sér síðan að gosinu við Litla Hrút: Doorstep statement by Prime Minister of Iceland at the NATO Summit in Vilnius

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí