Staða formanna ríkisstjórnarflokkanna er veik. Það er ekki bara að deilur innan ríkisstjórnarinnar hafa magnast og að viljinn til áframhaldandi samstarfs sé minni í baklandinu, heldur eru allir formennirnir nú með sína flokka á verri stað en þegar þeir tóku við.
Bjarni Benediktsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins 29. mars 2009 í uppgjörinu eftir Hrunið og hefur setið í embætti í 14 ár og bráðum fjóra mánuði. Þegar Bjarni tók við mældi Gallup fylgi flokksins 26,6%. Í síðustu könnun Gallup mældist fylgið 20,8%. Í dag eru þau 1/5 færri sem segjast vilja kjósa flokkinn.
Katrín Jakobsdóttir tók við sem formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs 24. febrúar 2013 í aðdraganda kosninga þar sem stefndi í afhroð flokksins. Hún hefur setið í embætti í tiu ár og bráðum fimm mánuði. Þegar Katrín tók við mældi Gallup fylgi Vg 7,4% en í síðustu könnun Gallup var fylgið 6,2%.
Sigurður Ingi Jóhannsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins 2. október 2016 í kjölfar birtingu Panamaskjalanna vorið áður. Sigurður Ingi hefur verið formaður í sex ár og bráðum tíu mánuði. Gallup mældi fylgi flokksins 9,8% um það leyti sem hann tók við en í júní síðastliðið mældist fylgi flokksins 8,7%.
Formennirnir eru samkvæmt þessu allir komnir með flokka sína neðar en þegar þeir tóku við. Það er grimm staða, sérstaklega í ljósi þess að þau komu öll inn á tíma þegar metið var að flokkarnir væru í alvarlegum vanda.