Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, segir að fleiri stjórnendum verði ekki sagt upp í bankanum en orðið er. Allir stjórnendur sem komu að sölu hlutabréfa í bankanum sjálfum séu farnir. Vandinn hafi verið yfirmannanna, ekki starfsfólksins sem vann undir þeim.
Hreinsanir innan bankans hafa verið þessar. Birna Einarsdóttir bankastjóri hætti á miðvikudaginn síðasta. Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta, hætti á laugardaginn. Og í gærkvöldi hætti Atli Rafn Björnsson, sem stýrt hefur fyrirtækjaráðgjöf bankans.
Í lok mars hætti Rut Gunnarsdóttir sem var regluvörður hjá bankanum þegar salan fór fram. Í mars hætti líka Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem var forstöðumaður eignastýringar bankans, og réð sig til Fossa, sem sameinaðist VÍS á dögunum. Ingvar Arnarsson hafði þá látið af starfi sínu sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar Íslandsbankans.
Jón Guðni bankastjóri segir að hér verði látið staðar numið. Ekki sé að vænta fleiri uppsagna.
Það mun koma í ljós á hluthafafundi í lok mánaðarins hvort einhver stjórnarmanna lifir þann fund af. Mikill vilji er meðal hluthafa að hreinsa til í stjórn bankans.
Þegar svört skýrsla ríkisendurskoðun um hlut bankasýslunnar í Íslandsbankamálinu var lögð fram lýstu ráðherrar ríkisstjórnarinnar því yfir að bankasýslan yrði lögð niður. Það hefur ekki enn gerst, en það hefur heldur ekki komið fram að ríkisstjórnin sé hætt við.
Eins og sjá má á skýringarmyndinni sem fylgir hér má reikna með allir ábyrgðaraðilar axli einhverja ábyrgð á þessu hneyksli, alveg frá fólkinu á gólfinu í Íslandsbanka og upp að fjármálaráðherra. Þar stoppar ábyrgðin.
Fyrir ofan ráðherrann er svo Alþingi, sem hlýtur að bregðast við og draga til baka heimildir sínar um sölu á hlut almennings í bankanum og viðurkenna mistök sín. Þingið var varað við að það gæti aldrei farið vel ef Bjarna Benediktssyni yrði falið að sjá um þessa sölu. Og það kom á daginn.