Sala Íslandsbanka var eitrað peð ríkisstjórnar Katrínar

Það er augljóst þegar þróun á ánægju almennings með ríkisstjórnina er skoðuð að salan á Íslandsbanka hefur grafið undan lífi þessarar ríkisstjórnar. Segja má að stjórnin hafi fórnað lífi sínu, fórnað svo til allri pólitískri inneign sinni með því að selja bankann, með því að selja hann útvöldum og með því að verja söluna og neita að taka á henni ábyrgð.

Af könnunum Maskínu sést vel hversu geigvænleg áhrifin voru af seinna útboðinu snemma síðasta vor. Almenningur mótmælti, sá strax hvernig í pottinn var búið. Almenn upplifun var sú að í sölunni hefði komið fram að ekkert hafði breyst frá Hruni. Og af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar var augljóst að hún ætlaði sér að verja þá stöðu. Eins og Hrunstjórnin og Eftir-Hrunstjórnin vildi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir ekki verja almannahagsmuni og ekki fara að vilja almennings. Þvert á móti vildi ríkisstjórnin verja rétt hinna ríku og fáu til að sölsa undir sig eignir almennings, að endurreisa og bera fé í marga af helstu ábyrgðarmönnum Hrunsins.

Milli tveggja ársfjórðunga féllu þau sem voru ánægð með ríkisstjórnina úr 37% í 26%. Og þeim sem voru óánægð fjölgaði úr 29% í 46%. Ef við drögum óánægju frá ánægju þá féll nettóstaða stjórnarinnar úr plús 8% í mínus 20%.

Og síðan hefur staðan versnað jafnt og þétt, eins og vanalega gerist þegar stjórnvöld missa lögmæti sitt. Atvik sem ríkisstjórn í góðum byr kæmist upp með valda því eftir hrun í trausti að enn grefst undan stjórninni. Í könnun Maskínu frá í júní sögðust 18% ánægð með ríkisstjórnina en 54% óánægð. Nettóstaðan er mínus 36%. Í lýðræðissamfélagi er fyrirbrigði í þessari stöðu lifandi dautt. Það er þarna en getur ekkert gert. Það nær æ færra í gegn, andstaðan gegn stefnu þeirra magnast.

Þegar Richard M. Nixon flaug á þyrlunni burt úr Hvíta húsinu rúinn trausti sögðust 23% enn vera ánægð með sinn forseta en 66% óánægð. Það er nettóstaða upp mínus 43%. Reikna má með að þegar áhrifin af skýrsla ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka síast inn í næstu könnun að ánægja landsmanna með ríkisstjórnina verði komin í sömu stöðu og Nixon var í þegar hann gafst upp.

Á þessu grafi sést að ríkisstjórnin lafir á flokkshollustu. Og aðeins á bláþræði. Aðeins helmingur kjósenda ríkisstjórnarflokkanna, þeirra sem eftir eru, segjast ánægð með ríkisstjórnina. Frá kosningum hefur 1/2 kjósenda Framsóknar snúið baki við flokknum, 2/5 kjósenda Vg og 1/4 kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Samanlagt hafa meira en 1/3 hluti kjósenda flokkanna flúið. Og af þeim sem eftir standa er aðeins helmingurinn ánægður með ríkisstjórnina.

Ef við leikum okkur af tölum og gerum ráð fyrir að allir sem flúðu séu óánægðir með ríkisstjórnina má ætla að um 34% þeirra sem kusu ríkisstjórnarflokkanna síðast séu ánægðir með hana. Og aðeins eilítið lægra hlutfall óánægt með hana.

Sjáið líka samanburðinn á milli kjósenda ríkisstjórnarflokkanna og annarra flokka. Hjá stjórnarflokkunum er nettóstaðan plús 35% en meðal fylgjenda annarra flokka mínus 69%. Þegar svona staða teiknast upp getur forysta ríkisstjórnarinnar séð að staðan sé vond og sóknarfærin svo til engin.

Staða ríkisstjórnar Katrínar nálgast Íslandsmet í fylgishruni og tapi á trausti. Fyrir ofan er Hrunstjórnin, sem missti fylgi á að sigla Íslandi í strand. Eftir-Hrunstjórnin sem missti pólitíska inneign sína með því að gera svo til ekkert af því sem almenningur vildi en margt sem fólk vildi alls ekki. Og Panama-stjórnin sem leidd var af mönnum sem voru um allan heim flokkaðir með spilltustu stjórnmálamönnum í heimi. Á eftir þessu kemur ríkisstjórn Katrínar sem fórnaði pólitískri inneign sinni, sem stjórnin hafði að nokkru fengið að gjöf frá cóvid, með sölunni á Íslandsbanka þvert á vilja mikils meirihluta þjóðarinnar.

Íslandsbankasalan er áfall fyrir alla ríkisstjórnarflokkanna eins og sést á fylgistapi þeirra. En það er nokkur munur þarna á.

Þarna sést að nettóstaða flokkanna er alls staðar í plús, en mismikið. Plús 43% hjá Sjálfstæðisflokknum, plús 26% hjá Framsókn og plús 19% hjá Vg. En þetta segir ekki alla söguna. Ef við tökum tillit til fylgistaps og reiknum með að fólkið sem hafi flúið flokkanna sé óánægt með ríkisstjórnarinnar þá má ætla að staðan á kjósendum flokkanna frá konsingunum 2021 sé svona: Plús 8% hjá Sjálfstæðisflokki, mínus 28% hjá Vg og mínus 37% hjá Framsókn.

Salan á Íslandsbanka var ofarlega á óskalista hægri flokkanna, einkum Sjálfstæðisflokksins. Þar innandyra er litið á stjórnmál sem vígvöll þar sem markmið flokksins eru landvinningar fyrir hönd hinna ríku, að ná sem mestu af auðlindum, eignum og valdi frá almenningi og færa þetta hinum ríkum fyrir sem minnst fé. Þetta mál var hins vegar ekki á óskalista Framsóknar og enn síður hjá Vg, alla vega ekki á óskalista kjósenda þess flokks. Framsókn og Vg létu til leiðast að gefa Sjálfstæðisflokknum þetta mál gegn því að fá einhver önnur mál í gegn í staðinn. Uppskeran af þeim samningum hefur hins vegar verið rýr því Sjálfstæðisflokkurinn áskilur sér alltaf vald til að stoppa mál samstarfsflokka sinna.

Niðurstaðan fyrir Framsókn og Vg er að þessir flokkar hafa leyft Íslandsbankasölunni að brjóta traust kjósenda á flokkunum. Og ekkert fengið í staðinn.

Vg náði undir forystu Katrínar Jakobsdóttur að jafna sig eftir hina ólukkulegu Eftir-Hrunstjórn. Um tíma mældist fylgi flokksins vel yfir 25%. Vg tókst ekki að landa því fylgi í kosningum, m.a. vegna hatrammra árása frá skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins sem útmálaði Katrínu sem Skatta-Kötu þegar hún benti á hið augljósa, að forsenda sambærilegrar velferðar á Íslandi og í nágrannalöndum okkar sé að hin ríku séu skattlögð með sama hætti og þar er gert. Staða Vg í könnunum er nú sú að flokkurinn hefur aldrei mælst veikari, er í sumum þeirra við það að þurrkast út af þingi.

Framsókn náði undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar flugi í síðustu kosningum undir slagorðinu Er ekki bara best að kjósa Framsókn? Og fylgdi því eftir með stórsigri í sveitarstjórnarkosningunum í fyrra. Flokkurinn hafði jafnað sig á klofningnum þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stofnaði Miðflokkinn og í raun gott betur, hafði ekki verið í betra formi síðan á síðustu öld. Þetta er nú allt glatað. Og meira og minna út af einu máli, Íslandsbankasölunni. Kannanir sýna að fylgið sem flokkurinn dró til sín í Reykjavík er nú alveg horfið og fylgið á landsvísu er við neðri mörk þess sem flokkurinn hefur séð.

Bæði í Vg og Framsókn hljóta öll ljós að blikka. Flokkarnir eru komnir á hættusvæði, svæði þar sem eðlilegt er að flokksfólk búa sig undir skipti á forystufólki. Eins og sést á grafinu hér að ofan er ekki hægt að gera ráð fyrir að ástandið jafni sig að sjálfu sér. Ríkisstjórnin er á hægri en öruggri leið til heljar. Og þá spyr flokksfólk sig: Er ríkisstjórnin þess virði að fórna lífi flokksins? Og er Íslandsbankasalan þess virði að við fórnum trausti almennings gagnvart ríkisstjórninni og þar. með flokkunum.

Hingað til hafa svörin verið já og já. Íslandsbankamálið er þess virði að fórna trausti almennings á ríkisstjórninni. Og ríkisstjórnin er þess virði að fórna trausti almennings á flokkunum.

Málið horfir öðru vísi við í Sjálfstæðisflokknum. Þar eru landsfundasamþykktir um sölu bankanna, um að færa þá úr almannaeigu yfir í eigu hinna ríku. Og þegar Bjarni Benediktsson formaður er rukkaður um svör vegna slæmrar stöðu flokksins í könnunum svarar hann vanalega einhvern veginn á þessum nótum: Hvort viljið þið fylgi eða árangur? Ég hef haldið flokknum í ríkisstjórnum sem fara í einu og öllu eftir vilja okkar. Viljið þið frekar meira fylgi en minni árangur á vígvellinum þar sem við vinnum hvert vígið á fætur öðru, náum að flytja auðlindir, eignir og völd almennings yfir í okkar herbúðir, til hinna ríku sem við vinnum fyrir?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí