„Það sem ég heyrði í þessu viðtali var frásögn af því þegar óheilbrigðir viðskiptahættir, frændhygli og spilling mætti eðlilegum og varfærnum viðskiptaháttum. Það að Norðmenn hafi ekki viljað treysta ógjaldfæru fyrirtæki fyrir 23 milljónum dollara eru eðlilegir viðskiptahættir. Það að Seðlabankastjóri greiði fyrir olíufarm er það ekki,“ skrifar Jón Ingi Hákonarson í grein á Vísi.
Tilefnið er viðtal við Hermann Guðmundsson, fyrrum forstjóra N1 í hlaðvarpsþættinum Chess after dark. Þar segir hann frá því að Statoil hafi neitað að afgreiða olíu til N1 þar sem fyrirtækið gat ekki lagt fram tryggingar í aðdraganda hrunsins 2008. Hermann tók þetta sem dæmi um að Norðurlandaþjóðirnar séu okkur ekki endilega vinir í raun og sagðist sjálfur aldrei hafa litið Norðmenn sömu augum vegna þessa.
N1 var á þessum tímum hluti af viðskiptaveldi Engeyinga og var Bjarni Benediktsson, þá þingmaður, stjórnarformaður félagsins. Ef olían hefði ekki fengist afgreidd hefði N1 líklega farið í þrot nokkrum mánuðum fyrr en raun varð á, en félagið varð gjaldþrota og töpuðu kröfuhafar gríðarlegum fjármunum. Það var hins vegar Davíð Oddsson Seðlabankastjóri sem frestaði gjaldþrotinu með því að reiða fram þessar 23 milljónir dollara úr sjóðum bankans fyrir fyrirtæki Engeyinga.
Eftir Hrunið, í desember 2008, þegar ljóst var að ekki var hægt að bjarga N1 hætti Bjarni sem stórnarformaður og sagði sig úr stjórn félagsins og móðurfélagsins BNT. Í viðtali frá þessum tíma sagðist hann hafa dregið sig út úr stjórnum þessara félaga til að geta helgað stjórnmálunum krafta sína, hann hafi fundið fyrir því á þessum haustmánuðum að full þörf væri á því.
Það er erfitt að áætla verðmæti þessa gjörnings þar sem gengi krónunnar var þarna við það að hrynja. En varlega áætlað eru þetta um fjórir milljarðar króna á. núvirði sem Davíð henti inn í gjaldþrota félag Engeyinga til að forða því frá fyrirsjáanlegu þroti.
Jón Ingi bendir á Hermann hafi í viðtalinu kosið að halda því utan við frásögnina í viðtalinu að Seðlabankanum er einungis ætlað að vera í viðskiptum við viðskiptabanka en ekki fyrirtæki og einstaklinga. „Það eitt og sér, að Seðlabankastjóri hlaupi undir bagga með ógjaldfæru fyrirtæki í samkeppnisrekstri vegna vináttu og kunningskapar við forstjóra og stjórnarformann félagsins hafi í raun og veru verið sýningargluggi inn í þá miklu spillingu og frændhygli sem einkennir þetta samfélag okkar,“ skrifar hann.
„Ég er þakklátur olíuforstjóranum fyrrverandi fyrir að leyfa okkur að sjá frá fyrstu hendi hvernig kaupin gerast á eyrinni, hvernig heilbrigðir viðskiptahættir eru í raun fjarri Íslandsströndum. Hér sést hvar valdið liggur. Þegar öllu er á botninn hvolft liggur valdið hjá þeim sem hafa aðgang að gjaldeyri,“ endar Jón Ingi grein sína.
Hér má lesa grein Jóns Inga: Fyrrum olíuforstjóri veitir ómetanlega innsýn inn í heim spillingar og óheilbrigðra viðskiptahátta.
Og hér má lesa endursögn Viðskiptablaðsins af viðtalinu við Hermann: „Hef aldrei litið Norðmenn sömu augum“.