„Ég ætla, ásamt öðrum, að halda 4 fundi í ágúst í þeim tilgangi að hvetja alla sanna Sjálfstæðismenn að láta þetta til sín taka og hjálpa til við að ná flokknum á réttan hugmyndafræðilegan kjöl. Ef forystan ætlar ekki að hlusta, þá þarf óhjákvæmilega að endurmeta stöðuna,“ segir Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður um ástandið í flokknum.
„Þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala mikið um sjálfstæðisstefnuna, en framfylgja henni ekki í verki,“ segir Arnar Þór. Hann segirr alvarlegasta dæmið vera frumvarpið um bókun 35. „Að mínum dómi hafa þau ekkert umboð sinna kjósenda til að leggja í þá vegferð, því enginn getur þjónað tveimur herrum.“
„Ef haldið er áfram á sömu braut þá er flokkurinn orðinn skrumskæling af því sem honum er ætlað að vera, þ.e. útvörður borgaralegra gilda, klassísks frjálslyndis og hófstillts íhalds. Það er ekkert frjálslynt við flokk sem vill þagga niður umræðu um sín kjarnagildi. Það er ekkert íhaldssamt við flokk sem ver ekki menningarlegar hefðir og lýðræðislegar undirstöður. Mögulega er staðan orðin sú að menn þurfa að ræða alvarlega hvort Sjálfstæðisflokkurinn í núverandi mynd sé orðinn gervi-hægriflokkur, sem vængstýfir raunverulega hægri pólitík með því að láta kjósa sig á fölskum forsendum og framfylgja alls ekki því sem honum er ætlað að standa vörð um og gera,“ segir Arnar Þór.
„Menn geta ekki falið sig endalaust á bak við að stjórnarsamstarfið feli í sér ,,málamiðlanir“, því kjósendur kæra sig ekki um prinsipplaus stjórnmál. Það er versta útgáfa stjórnmálastarfs, þar sem menn þjóna eigin hagsmunum og kjósa með málum þvert gegn samvisku sinni og sannfæringu. Þegar svo er komið eiga menn að sjá sóma sinn í að taka pokann og finna sér annað að gera. Þetta fólk þarf að átta sig á að þau starfa ekki í lokuðum heimi, heldur eiga að vera í þjónustu almennings. Stjórnmálin eiga að þjóna almenningi ekki stjórnmálamönnum sjálfum, ekki embættismannakerfinu, ekki ESB, ekki alþjóðastofnunum,“ segir Arnar Þór.
„Sjálfstæðisflokkur sem ætlar að svíkja sín eigin grunngildi er ekki heilög kýr. Innantóma skurn þarf enginn að verja, en gildin þarf að standa vörð um. Það er óheiðarlegt að ætlast til þess að fólk kjósi flokk út á gildi sem forystumenn flokksins ætla ekki að framfylgja. Flokkurinn er í brotsjó og þá verða menn að halda fast um stýrið og rétta skipið af áður en illa fer,“ segir Arnar Þór.