Svandís hissa að nær öll þjóðin telji sjávarútveginn spilltan – Segir lausnina að „draga frá og lofta út“

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að það sé óásættanlegt fyrir stjórnvöld að nær allir landsmenn telji íslenskan sjávarútveg spilltan. Hún virðist þó telja að það sé fremur byggt á misskilningi heldur en að þjóðin hafi einfaldlega rétt fyrir sér. Þetta kemur fram í pistli sem hún birtir á vef Vinstri grænna, en í honum kemur einnig fram að hún sé þó með lausnina við þessum vanda: það þarf einfaldlega að „auka gagnsæi“.

Svandís segist hafa fyrir ári sett af stað vinnu um stefnumörkun í sjávarútvegi undir formerkjum Auðlindarinnar okkar. Markmiðið er að hennar sögn að auka samfélagslega sátt um greinina. Það mun verða ærið verkefni því nær allir Íslendingar telja útgerðina spillta. Hluti af þessari stefnumótun Svandísar var að gera skoðanakönnun meðal almennings um afstöðuna til greinarinnar. Niðurstaðan virðist hafa komið Svandísi á óvart. „Sérstaka athygli vakti að mikill meirihluti almennings telur íslenskan sjávarútveg spilltan, raunar taldi einungis einn af hverjum sex landsmönnum sjávarútveg vera heiðarlegan,“ skrifar hún.

Svandís virðist ekki telja að þessi niðurstaða kalli á neinar róttækar breytingar á kvótakerfinu, í það minnsta nefnir hún það ekki í pistlinum. Þess í stað telur hún að lausnin sé að „auka gagnsæi“. Hún útskýrir það svo: „Það er staðreynd að aukið gagnsæi hefur jákvæð áhrif á ýmsa þætti viðskiptalífs. Bæði eykur það líkur á að fyrirtæki sýni ábyrgð og dregur úr líkum á að farið sé á svig við reglur. Þá er aukið gagnsæi lykilatriði í því að bæta stjórnunarhætti þar sem nálgast má upplýsingar um alla þá þætti er máli skipta. Aukið gagnsæi dregur úr líkunum á hagsmunaárekstrum og þar með líklegra að ákvarðanir séu teknar í þágu hluthafa og almennings.“

Hún heldur svo áfram: „Sé dregið frá og loftað út þá má ætla að betri skilyrði séu fyrir því að skapa traust milli sjávarútvegsins og almennings. Bæði um þau samfélagslegu deilumál sem hefur verið tekist á um áratugum saman en einnig til þess að gera greininni sem heild kleift að sýna forystu í umræðu um gagnsæi og réttlæti. Gagnsæi er ekki bara réttlætismál, heldur einnig afar mikilvæg forsenda framfara.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí