Þolendur kynbundins ofbeldis ítrekað synjað um vernd

Fólk sem hingað leitar eftir vernd  frá ýmsum Afríkulöndum er oft á tíðum að flýja fátækt og hungur, en síðast en ekki síst er það að flýja gamalt ættbálka- og feðraveldi í allri sinni dýrð.

Kona frá Egyptalandi, Sómalíu, Nígeríu, Líbíu og fleiri Afríku og Asíuríkjum byrjar æfi sína á því að vera umskorin þar sem hún er oft á tíðum sködduð svo mikið að hún mun aldrei njóta kynlífs.  Ástæðan er oftast hefð til að koma í veg fyrir framhjáhald.

Hún er þar með strax orðin að hylki til að ganga með börn og þjóna.  Slíkt bitnar svo á makanum sem á erfitt með að eiga kynlíf með konu sem nýtur þess ekki.  Oft enda samböndin með ósköpum og framhjáhaldi karlanna, jafnvel að þeir yfirgefi þær og börnin þeirra.  Ef eitthvað af börnunum eru sveinbörn missir konan jafnan barnið til föðurins eða tengdafólksins því stúlkubörnin eru verðlaus þegar kemur að hlutverkum kynjanna í fornu feðraveldinu.  

Dæmi eru um að hingað til lands leiti konur sem hafa verið fluttar mansali milli landa þar sem þær eru gerðar út í vændi í öðrum löndum jafnvel gerðar út af eigin fjölskyldumeðlimum og látnar senda peninga heim.   Þessar konur eru ekki að sækja um vernd á Íslandi til að senda peninga heim.  Þær eru að flýja hrottalega meðferð frá barnsaldri og þær eru oft á tíðum að flýja fjölskyldurnar sínar og maka ekki síður en ættbálkaerjur og fátækt og jafnvel að koma í veg fyrir að missa börnin sín.

Þær hafa verið limlestar, þeim nauðgað og þær seldar eins og hver önnur vara og þær hafa jafnvel verið í mörg ár á hrakhólum undir hæl karla og kvenna sem stýra feðra- og ættbálkaveldinu í undirheimunum sem ná frá Afríku til Asíu og Evrópu af hörku.  Þær eru jafnvel látnar senda smáaurana sem þær fá í flóttamannabúðunum heim ef þær ná á annað borð að koma sér í slíkt skjól.

Í sumum tilfellum koma þær hingað þegar þær eru komnar með lítil börn eða bera barn undir belti en þú kemst varla lengra frá fólkinu þínu en til Íslands og ef þú hefur náð að lesa þér eitthvað til um land og þjóð þá veistu að börnin þín ættu að vera örugg hér á landi.   Eða hvað?  Kannski ekki, í jafnréttisparadís Katrínar Jakobsdóttur?  

Á vef stjórnarráðsins segir; Þau sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu til að mynda dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega meðferð eiga rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamenn. 

Þetta ætti að eiga við um ungar konur sem gerðar eru út í vændi og fluttar mansali en við synjum konum og börnum grimmt þessa dagana.  

Börn sem fæðast hér á landi fá jafnvel erlendar kennitölur en ekki er langt síðan ríkið notaðist við svokallaðar utangarðskennitölur.  Þær voru dæmdar ólöglegar en hvernig erlendu kennitölurnar virka svo hægt sé að vísa börnum sem hér fæðast aftur til Grikklands og Ítalíu er blaðamanni hulin ráðgáta. 

Útlendingastofnun er um þessar mundir með ótal fjölskyldur í járnum vegna sumarleyfa.   Fólk sem búið er að sækja um efnislega meðferð en fær engin svör.  

Bæði Ítalía og Grikkland hafa neitað að taka við fólki aftur en samt þráast stjórnvöld á Íslandi við og nota Dyflinarreglugerðina grimmt. Ungabörn sem fædd eru hér á landi eru tekin úr örmum foreldra sinna með valdi svo hægt sé að gera vegabréf fyrir þau.  

Ríkisstjórnin stærir sig af því að hér hafi verið tekið á móti helmingi fleiri flóttamönnum en árið á undan.  Þá er kannski vert að minna á að það var ekki svo mikið fyrir og að stærsti hluti þessa fólks er kvótaflóttafólk frá Úkraínu og opin gátt frá Venesúela.   

Við lifum stríðstíma og hörmungar þar sem fólk á flótta hefur aldrei verið jafn fjölmennt.  Innviðir okkar halda vel enn þá og samkvæmt hægagangi í byggingu landspítala og fleiri verka þá vantar okkur vinnandi hendur. Við stærum okkur einnig af því að vera land mannréttinda og velferðar en sýnum það ekki alltaf í verki.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí