Atli Rafn Björnsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka, er hættur í kjölfar úttektar fjármálaeftirlitsins á sölu bankans á eigin bréfum. Atli Rafn starfaði undir Ásmundi Tryggvasyni, sem sæti átti í framkvæmdastjórn bankans og heyrðu fyrirtæki og fjárfestar undir hann. Ásmundur hætti á laugardaginn og Birna Einarsdóttir bankastjóri á miðvikudaginn.
Atli Rafn hefur starfað á fjármálamarkaði í yfir 18 ár, á Íslandi og í Bretlandi. Hjá Íslandsbanka hefur Atli Rafn starfað sem sérfræðingur í greiningardeild, á skrifstofu bankastjóra í forstjóratíð Lárusar Welding og Birnu Einarsdóttur, sem viðskiptastjóri sjávarútvegsfyrirtækja á lánasviði en lengst af hefur Atli Rafn unnið við fyrirtækjaráðgjöf þar sem hann hefur verið forstöðumaður frá árinu 2019.
Meðal verkefna sem hann stýrði eða tók þátt í voru hlutafjárútboð Icelandair Group, yfirtökutilboð Strengs í Skeljung, yfirtökutilboð Brims í HB Granda, sala á Icelandair Hotels, sala á Keahótelum, sala á dótturfélögum Icelandic Group, sala á HS Veitum, kaup á Tandri, kaup á hlut í Eskju, kaup á Ölgerðinni, kaup Brims á Ögurvík og Icelandic Asia.
Atli Rafn sendi inn beiðni Íslandsbanka til Ríkiskaupa um umsjón um sölu á bréfunum í Íslandsbanka. Þar er Íslandsbanka lýst með nokkrum öðrum hætti en gert var í skýrslu fjármálaeftirlitsins.
„Íslandsbanki hefur sett sér metnaðarfulla stefnu um sjálfbærni sem miðar að því að rekstur bankans verði til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi útfrá alþjóðlegum viðurkenndum viðmiðum um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS),“ segir þar. „Íslandsbanki stefnir á að vera leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og vill vera hreyfiafl til góðra verka í samfélaginu.“
Síðar segir: „Íslandsbanki hefur jafnframt sett sér stefnu um hagsmunaárekstra sem kveður m.a. á um hvernig greina og meta skuli hagsmunaárekstra í starfsemi bankans. Á grundvelli þeirrar stefnu hefur bankinn sett sér reglur um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum. Í þeim er að finna reglur um gjafir og boðsferðir, reglur um viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga, reglur um þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri og reglur um þóknanir, umboðslaun og annan ávinning við veitingu fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu og reglur um aðskilnað starfseininga. Árlega sitja starfsmenn bankans sérstaka fræðslu um stefnu bankans um hagsmunaárekstra og reglur um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum.“
Myndin er af Atla Rafni, Birnu og Ásmundi.