Samkvæmt The Washington Post hefur her Úkraínu byrjað að skjóta klasasprengjunum sem hann fékk frá Bandaríkjunum á rússneska herinn. Her Úkraínu notaði sprengjurnar í dag, í Suðaustur hluta Úkraínu í þeim tilgangi að komast í gegnum línu Rússa sem er mjög vel varin.
Úkraína er nú í gagnsókn gegn rússneska hernum, sem ekki hefur gengið sem skyldi, samkvæmt úkraínskum ráðamönnum. Vladímir Pútin, forseti Rússlands, hefur lýst yfir að gagnsókn Úkraínu hafi mistekist.
Úkraína fékk vopnin í hendurnar í síðustu viku. En sú ákvörðun Bandaríkjana, að afhenda Úkraínu klasasprengjur hefur verið mikið gagnrýnd af mannréttinda- og hjálparsamtökum víða um heim. Klasasprengjur eru bannaðar samkvæmt alþjóðlegum sáttmála sem yfir 100 lönd hafa skrifað undir. Bandaríkin og Rússland eru þó ekki þar á meðal.
Pútín hefur áður sagt að ef Úkraína notar klasasprengjur gegn her Rússlands, þá muni rússneski herinn svara í sömu mynt með eigin klasasprengjum. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum, þá hefur rússneski herinn þó nú þegar notað klasasprengjur að minnsta kosti 24 sinnum í Úkraínu síðan að innrásin hófst.
Búist er við að Úkraína muni einnig nota sprengjurnar til að ná aftur til sín borginni Bakhmut sem Rússar stjórna eins og staðan er nú, en þar hafa átt sér stað einhver af blóðugustu átökunum í stríðinu.