„Í vikunni fékk ég stórundarlegt bréf í ábyrgðarpósti frá Fiskistofu, þar sem tilkynnt var um að ég hefði verið staðinn að lögbroti á Hofsósi, í júní árið 2022 og varðaði brotið, atvinnuþvingunum og allt að sex ára fangelsisvist!“ skrifar Sigurjón Þórðarson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra og varaþingmaður flokks fólksins á Facebook-síðu sína.
„Meint lögbrot var að mati Fiskistofu er að hafa landað nokkur hundruð kílóum af fiski á Hofsósi, án þess að ganga úr skugga um að sá sem tók við aflanum, hefði löggilt vigtarpróf! Það var enginn grunur um framhjálöndun eða nokkurt svindl af neinu tagi – fyrir þetta veifar Fiskistofa hótun um 6 ára fangelsisvist. Málið er að ég hef landað afla í nokkrum höfnum landsins, en aldrei dottið í hug að spyrja þann sem tekur við aflanum hvort hann hafi próf á vigtina eða á lyftara,“ skrifar Sigurjón.
Eftir að hafa lesið málsatvik og málatilbúnað Fiskistofu nánar taldi Sigurjón málið vera einhver mistök enda taldi hann meginreglur stjórnsýslulaga brotnar í málsmeðferð stofnunarinnar. „Upp í hugann skaut einnig þeirri hugmynd að málið væri mögulega angi af andúð og pólitískum ofsóknum,“ skrifar hann.
„Til þess að taka af allan vafa skrifaði ég fiskistofustjóra Ögmundi Hauki Knútssyni bréf og óskaði eftir að málið yrði endurskoðað og kærði jafnframt málsmeðferðina til Benedikts Árnasonar ráðuneytisstjóra matvælaráðuneytisins. Það hafði ekki annað upp á sig en að Fiskistofa ítrekaði delluna þannig að eftir því sem málinu vindur áfram get ég ekki séð annað en að það sé kominn pólitískur grænmyglulegur óþefur af málinu,“ skrifar Sigurjón.
Sigurjón segir ljóst að málið undirstriki athugasemdir hans á opinberum vettvangi við störf Fiskistofu þ.e. að stofnunin beiti sér ekki gegn skýrum lögbrotum stærri aðila í sjávarútvegi m.a. hvað varðar að virða skýr ákvæði laga um kvótaþakið og margfaldar vigtarreglur þar sem augljóslega er verið að hygla þeim stærri, á sama tíma og þunga eftirlitsins er beint að því smáa.
„Málið lítur verulega illa út fyrir ásýnd stjórnsýslunnar í landinu þ.e. að það vakni upp rökstuddur grunur um, að þeir sem gagnrýna stjórnvöld opinberlega séu lögsóttir með langsóttum lagtæknilegri rökleysu,“ skrifar hann.
Lesa má færsluna á vegg Sigurjóns hér: Facebook-síða Sigurjóns Þórðarsonar