30 fjölskyldur lögsækja breska ríkið vegna Covid-dauðsfalla vorið 2020

Hópur 30 fjölskyldna hefur höfðað mál á hendur breskum stjórnvöldum, hjúkrunarheimilum og sjúkrahúsum, vegna andláta ættingja þeirra snemma í Covid-faraldrinum, vorið 2020.

Fjölskyldurnar segja að ekki hafi nóg verið gert til að koma í veg fyrir dauðsföllin og fara fram á bætur fyrir andlátin og álag sem þeim fylgdi. Þá segja þau að vanhæfni stjórnvalda til að standa vörð um rétt hinna látnu til lífs feli í sér mannréttindabrot, auk þess sem brotið hafi verið á réttinum til einkalífs, fjölskyldulífs og verndar frá mismunun.

Ekki gripið til nauðsynlegra varna

Öll tilfellin snúast um dauðsföll sem urðu vorið 2020, þegar sjúklingar smitaðir af Covid voru færðir frá sjúkrahúsum inn á hjúkrunarheimili. Í umfjöllun The Guardian um málið er rætt við einn ákærenda, Amöndu Henry, en faðir hennar, Robert Henry, lést af völdum Covid í apríl 2020. Hann var 78 ára gamall, með heilabilun, og smitaðist af veirunni á hjúkrunarheimili.

Amanda Henry segir að þegar henni var leyft að heimsækja föður sinn, á dánarbeðinu, hafi hún séð starfsfólk fara um án hlífðarbúnaðar á við andlitsgrímur, og að læknirinn sem annaðist hann hafi verið uppiskroppa með Covid-próf. „Ráðstafanir voru ekki gerðar til að tryggja að þau væru varin, sem er það sem stjórnvöld lofuðu að gera, sagði dóttirin í viðtali við blaðið.

Hún sagði að það sem hvetti hana áfram í málinu væri fyrst og fremst að sjá að gengist yrði við ábyrgð á andláti föður hennar. „Ábyrgð stjórnvalda og ábyrgð hjúkrunarheimilisins. Stjórnvöld hefðu átt að gera meira. Þau gerðu í raun ekki neitt af því sem þau sögðust vera að gera.“

Ekki reynt að verja eldra fólk

Það var í mars 2020 sem ákveðið var að fjöldi sjúklinga yrðu útskrifaðir af sjúkrahúsum og færðir á hjúkrunarheimili án þess að undirgangast Covid-próf eða einangrun. Blaðið hefur eftir einum lögfræðinganna sem annast málið, Beatrice Morgan, að skjólstæðingar þeirra líti svo á að „leiðbeiningarnar sem heilbrigðisráðherra gaf út á fyrstu vikum faraldursins hafi leitt til þúsunda ónauðsynlegra dauðsfalla. Margir líta fastlega svo á að með leiðbeiningunum hafi á þeim tíma ekki verið reynt að verja eldra fólk, heldur hafi ástvinum þeirra verið stefnt í ónauðsynlega hættu.“

Margt bendir til að öðruvísi hefði verið hægt að standa að málum á þessum tímapunkti en gert var í Bretlandi, enda létust fleiri af völdum faraldursins í fyrstu bylgjum hans þar en í fjölda annarra ríkja. Ísland er á meðal þeirra fjölda landa þar sem langtum færri létust af völdum faraldursins en í Bretlandi umrætt vor.

Dauðsföll af völdum faraldursins á Íslandi voru innan við 40 alls þar til í upphafi árs 2022, þegar sóttvarnir voru felldar niður í fyrstu bylgja Omicron-afbrigðisins. Það ár dró faraldurinn um 400 manns til dauða hér á landi. Ekki hefur spurst til fyrirhugaðra málsókna vegna þeirrar niðurfellingar sóttvarna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí