Aðgerðasinnar í San Francisco mótmæla sjálfakandi bílum með því að „keila“ þá

Aðgerðasinnar í San Francisco hafa tekið að stilla umferðarkeilum upp á húddin á sjálfakandi bílum í borginni til að kyrrsetja þá. Bílarnir standa þá sem frosnir og aka ekki aftur af stað fyrr en einhver kemur og fjarlægir keiluna af húddinu. Samtökin sem standa að þessum aðgerðum kalla verknaðinn „coning“ – keilun. Með því að keila bílana vilja þau mótmæla því að borgin sé notuð sem tilraunasvæði fyrir sjálfkeyrandi bíla, tækni sem enn er í þróun.

Tvö fyrirtæki gera nú prófanir með sjálfakandi bíla í opinni umferð á götum San Francisco-borgar í Kaliforníu: Cruise heitir annað fyrirtæki, í eigu General Motors, og Waymo er hitt, í eigu Alphabet, móðurfyrirtæki Google. Bæði fyrirtækin hafa varið gríðarlegum fjármunum í þróun sjálfakandi bíla á undanliðnum árum. Í borginni eru þeir nú starfræktir sem leigubílar í tilraunaskyni.

Waymo hefur leyfi borgaryfirvalda í San Francisco til að prufukeyra 250 bíla, Cruise fyrir 100-300 eftir tímum sólarhrings, þó að þeim hafi verið fækkað um helming eftir að einn bílanna lenti í árkestri við slökkviliðsbíl í síðustu viku.

Safe Street Rebel, samtök gegn bílum

Samtökin Safe Street Rebel berjast fyrir bílalausum rýmum, jafnræði í samgöngum og endalokum á yfirburðastöðu bílsins, samkvæmt vefsíðu þeirra: „Fólk samfélag og rými fyrir almenningsgarða verður að hafa forgang yfir mengandi og lífshættuleg farartæki.“ Samtökin hafa meðal annars haldið vökur til að minnast þeirra sem láta lífið í bílaumferð.

Barátta samtakanna beinist með öðrum orðum ekki eingöngu að sjálfakandi bílum, heldur stendur hún í beinum tengslum við baráttu þeirra gegn bílum yfirleitt. Sérstaða sjálfakandi bílanna – eða róbóbílanna, til þýðingar á orðinu robotaxi, sem þau nota í kynningarefni – er þó nokkur, að sögn samtakanna. Í fyrsta lagi séu þeir hafnir yfir lögin að því leyti sem ekki er hægt að sekta þá fyrir umferðarlagabrot.

Í öðru lagi muni róbóbílar auka á umferðarkrísu borgarinnar og loftslagskrísu heimsins, en ekki draga úr þeim: „Ef við leyfum sjálfakandi bílum að verða jafn útbreiddir og formælendur þeirra vilja, þá verða borgir okkar aðeins háðari bílum en fyrr,“ segja samtökin.

Í samstöðu með stéttarfélagi leigubílstjóra

Í þriðja lagi leiði innleiðingin til tilfærslu starfa frá leigubílstjórum yfir í símaver og aðra þess háttar fjarþjónustu, sem auðveldi fyrirtækjum illa meðferð starfsfólks: „Réttmæt tilfærsla í átt frá bílum og yfirburðastöðu þeirra felur í sér að annast verður það verkafólk sem verður fyrir mestum áhrifum af breytingunum, ekki með því að færa það í stöður sem er auðveldara að undiroka. Við stöndum stolt með Bandalagi leigubílstjóra í San Francisco í baráttunni gegn róbóbílum,“ segja samtökin.

Í fjórða lagi feli innleiðing sjálfvirkra bíla í sér aukið eftirlit: „Fyrirtækin að baki sjálfakandi bílum eiga í samstarfi við lögreglu og virka sem umsvifamikill eftirlitsbúnaður. Tækin fanga linnulaust bæði hljóð og mynd án okkar samþykkis. Þessi fordæmalausa innrás í einkalíf almennings mun sennilega hafa víðtæk áhrif á réttindi alls almennings.“ Samtökin nefna til dæmis að nýverið hafi lögregludeild í borginni Sacramento deilt eftirlitsgögnum með ríkjum sem hyggjast lögsækja fólk fyrir að leita leiða til þungunarrofs. „Hreyfanlegt net sem fylgist með og greinir allt sem gerist utandyra, um alla borgina, tilheyrir framtíðartryllum, ekki lýðræðissamfélagi.“

Í fimmta lagi bera samtökin fram spurningar um aðgengi: Þeir sjálfakandi bílar sem fyrirtækin reiði nú fram séu ekki aðgengilegir hjólastólum og leggi ekki fast upp við gangstéttarbrúnir. „Róbóbílafyrirtækin eru hagnaðardrifin og hugsa ekki um aðgengi að fyrra bragði.“

Hættulegir já, en ekki jafn hættulegir og mannfólk, segja fyrirtækin

Loks má á vefsíðu samtakanna sjá lista yfir hátt í 300 skráð óhöpp sem hafa bílarnir hafa valdið í reynsluakstrinum: þeir hafa farið yfir á rauðum ljósum, klesst á strætisvagn, lokað gangbrautum og hjólastígum – í einu tilfelli söfnuðust tugir ringlaðra bíla saman í botnlanga í íbúðarhverfi og tepptu götuna, í öðru ók Waymo bíll yfir hund, sem lést af völdum ákeyrslunnar.

Bæði fyrirtækin, Cruise og Waymo, segja þó að bílar þeirra séu þegar öruggari en mennskir bílstjórar, og hafi lent í fáum óhöppum samanborið við mannfólk, miðað við fjölda ekinna kílómetra. Bílarnir hafi nú ekið milljónir kílómetra án þess að valda dauðsfalli eða alvarlegum áverkum. Í umfjöllun NPR er bent á að sjálfakandi bíll á vegum fyrirtækisins Uber hafi aftur á móti orðið gangandi vegfaranda að bana í Arizona, árið 2018.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí