Í ritstjóratíð Davíðs Oddssonar hefur Morgunblaðið færst hratt út á hægri jaðar stjórnmálanna. Í leiðurum blaðsins skrifar hann fallega um Donald Trump, Giorgiu Meloni og Jair Bolsonaro. Og hlýlega um Benjamín Netanjahú, Viktor Orban og aðra oddvita ysta hægrisins. En ákaflega illa um pólitíska andstæðinga þessa fólks. Í leiðurum Davíðs og Reykjavíkurbréfum er til dæmis dregin upp sama mynd af Joe Biden og Donald Trump gerir í ræðum sínum, af syfjulegu gamalmenni sem ekki veit hvað er að gerast í kringum sig.
Í Mogga dagsins kom fram að þessi afstaða er ekki bundin við leiðara, Reykjavíkurbréf eða Staksteina. Í gær kom fram að Donald Trump hefði verið ákærður fyrir að hafa grafið undan kosningum með lygum og blekkingum. Þessi frétt var helsta frétt allra bandaríska blaða í dag, en mörg evrópsk blöð misstu af henni þar sem hún kom seint fram. Það á þó ekki við um Moggann því mbl.is birti frétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi af ákærunum, nokkru áður en blaði morgundagsins er lokað.
Í stað þess að hafa þessa frétta á forsíðu var frétt um hneykslismál Hunter Biden á forsíðunni undir fyrirsögninni: Forsetinn tengdur viðskiptum sonarins. Þar segir að fram hafi komið í lokuðum þingnefndaryfirheyrslum yfir Devon Archer, fyrrveranda viðskiptafélaga Hunters, að Joe Biden hafi verið þátttakandi á viðskiptafundum Hunters Biden, sonar síns, að minnsta kosti 20 sinnum, bæði í eigin persónu og á símafundum.
Og inn í blaðinu er engin frétt um ákærurnar á hendur Trump sem birtar voru í gær.
Leiðari Moggans er svo tileinkaður Hunter Biden. Yfirskrift leiðarans er: Mesta spillingarhneykslið.
„Lengi hefur hvorki gengið né rekið varðandi stórundarleg mál sem snúa að Hunter Biden, syni forseta Bandaríkjanna. Verjendur forsetans, sem beita ákaft fyrir sig hefðbundnum öflugum fjölmiðlum sem lengi hafa stutt demókrata, taka allir sem einn þann pól í sína hæð að Hunter sé aðeins eins og hver önnur persóna úti í bæ sem lifi sínu lífi óháð föður sínum forsetanum,“ byrjar leiðarinn.
Og heldur áfram: „Þær varnir hafa lengi dugað en verða þó sífellt þungbærari. Og í gær gjörbreyttist staðan. Með yfirheyrslunum sem fóru fram í gær virðist orðið ljóst að þetta mál sé ekki lengur Hunters heldur Joes Bidens föður hans, forseta Bandaríkjanna. Og það stefni nú í algjörar ógöngur með tilheyrandi afleiðingum eftir yfirheyrslur í þinginu í gær. Þá var fyrrverandi vinur og samstarfsmaður Hunters spurður spjörunum úr og hafa nokkrar fréttir frá þeim yfirheyrslum þegar borist út, þótt þær verði ekki birtar formlega fyrr en eftir fáeina daga.“
Síðan fjallar höfundur, sem án vafa er Davíð Oddsson, áfram að fjalla um málið, sem hann segir stærsta hneykslið í bandarískum stjórnmálum.