„Auðvitað ekki rétt“ að fólk muni enda á götunni, sagði Guðmundur Ingi í vor

Í þingumræðum um útlendingafrumvarpið sem varð að lögum í vor sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„En varðandi þau orð háttvirtra þingmanna að hér muni fólk enda á götunni ef þjónusta er tekin af eftir brottvísun, þá er það auðvitað ekki rétt vegna þess að 15. grein félagsþjónustulaga sveitarfélaga grípur fólk. Það er mat Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins að 15. grein félagsþjónustulaganna grípi fólk.“

Nú er ljóst að fjöldi fólks er þegar á götunni, sem hefur verið úthýst í krafti laganna, og sveitarfélögin segjast ekki ætla að bregðast við. 15. grein félagsþjónustulaga sveitarfélaga grípur fólkið, enn sem komið er, ekki.

„Það vissu allir að þetta væri að fara að gerast“

Sema Erla Herdar, forseti hjálparsamtakanna Solaris, greindi frá reynslu síðustu daga í streymi á Instagram á mánudagskvöld.

„Það angrar mig,“ sagði hún, „að fólk talar mjög mikið um þegar og ef og kannski. Það er ekkert ef flóttafólk verður heimilislaust eða þegar eitthvað breytist. Þetta er staðan núna. Það er fólk sem er búið að vera dögum og jafnvel vikum saman á götunni. Og ég ítreka: fólk með ekki neitt tengslanet. Það hefur ekki á neinn stað að sækja. Þú þarft kennitölu til þess að fara í gistiskýlin, þannig að það er ekki hægt að fara þangað, af því að við erum að tala um einstaklinga sem eru ekki með kennitölu. Og yfirvöld benda bara á hvern annan. Sveitarfélög hafa hreinlega sagt að þau ætli ekki að bregðast við þessum aðstæðum. Þau ætli ekki að aðstoða þetta fólk. Á sama tíma og félagsmálaráðherra bendir á sveitarfélögin. Þannig að við erum bara í þeirri stöðu að það er enginn í kerfinu að gera neitt til þess að breyta þessu. Það er ekkert um að vera sem leiðir af sér einhvers konar viðbrögð fyrir fólkið.“

Sema Erla Herdar í streymi á Instagram á mánudagskvöld.

Aðspurð um viðbrögð stjórnvalda, síðar í streyminu, sagði Sema Erla:

„Ég held að það hafi nú ekki heyrst nokkur skapaður hlutur frá forsætisráðherra. Það tók nú fjóra daga, held ég, að ná í dómsmálaráðherra. Og það kannski einmitt líka minnir mig á það, eins og ég var að segja: Þetta var yfirvofandi. Við vissum alveg hvað væri að fara að gerast. Og það er ótrúlegt að heyra að það hafi ekki farið fram neitt samtal á milli ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna. Það er það sem allir eru að segja, það er einhvern veginn, sko bæði það að það fer ekki fram neitt samtal. Ráðherrann segir bara að sveitarfélögin eigi að grípa þetta. Sveitarfélögin, þau geta greinilega bara sagt nei, takk. Þau virðast hafa val um hvort þau ætli að bregðast við þessari stöðu eða ekki. En sveitarfélögin hefðu kannski líka alveg getað undirbúið sig að einhverju leyti, vegna þess að þau vissu alveg líka að þetta væri að fara að gerast. Það vissu allir að þetta væri að fara að gerast. Þetta var bara spurning um hversu hratt og til hverra þetta myndi ná.“

Fimmtánda greinin

Sú grein félagsþjónustulaga sem Guðmundur Ingi sagðist stóla á í þingumræðunum í vor, 15. greinin, hefst á eftirfarandi orðum svohljóðandi:

„Erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skal í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi.“ Þá segir í greininni að ráðherra sé heimilt að setja nánari reglur um slíka aðstoð, og að Ríkissjóður skuli endurgreiða sveitarfélagi veitta aðstoð þegar hún snúr að erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili á Íslandi.

Í streyminu á mánudag lýsti Sema Erla atburðarás helgarinnar, allt frá föstudegi, þegar hún og fleiri fulltrúar Solaris komu að húsnæðisúrræði stjórnvalda við Bæjarhraun í Hafnarfirði, þar sem þrjár konur höfðu þá þegar verið bornar út. Sema útskýrði: „Að bera einhvern út þýðir að þú ert leiddur út úr húsnæðinu með töskuna þína og pokana þína eða hvað það er sem þú ert með með þér og þú ert skilin eftir á gangstéttinni. Þannig að þær fengu bara fylgd út og voru skildar eftir þar.“

Bókstaflega borin út á götu

Sema útskýrði nánar: „Þegar þú ert í kerfinu, þá ertu í úrræði á vegum Útlendingastofnunar. Þú færð 8.000 krónur á viku til þess að kaupa mat, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, svo er það bara mismunandi eins og það er. Og erfiðlega gengur að fá slíka þjónustu. En eftir að þessum lögum var breytt, þetta var mjög skýrt í lögunum, að 30 dögum eftir að slík niðurstaða er komin, þá ber þér að fara út úr úrræði Útlendingastofnunar, þú ert sviptur allri þjónustu á Íslandi. Það er klippt á kortin og þú ert bókstaflega borin út á götu af lögreglu. Og það er það sem er búið að vera að gerast núna, síðustu daga og vikur. “

Alls eru tugir fólks sem hafa sótt um vernd á Íslandi nú þegar í þessari stöðu. Þar af segir Sema Erla að samtökunum hafi tekist að nálgast um helminginn til að bjóða aðstoð, og um tíu manns hafi þegið hana. „Staðan er þannig núna að við erum rúntandi um höfuðborgarsvæðið, að finna fólk í hrikalegum aðstæðum og reyna að koma þeim í skjól tímabundið, allavega fara með mat til þeirra, eða við látum fólk frá bónuskort þannig að það geti farið sjálft og verslað.“

Sema Erla greindi meðal annars frá ungum manni sem hún fann þar sem hann hafði búið um sig í gjótu: „Þar var hann búinn að vera í tíu daga, í einhverju tjaldi og ruslapoka einhvern veginn sett saman, augljóslega náttúrlega ekki búinn að komast í sturtu, hann var ekki með föt til skiptana, og hann var að sýna mér hvar hann hefði verið að finna matarafganga á götunum eða í ruslatunnum til þess að borða. Þetta er ungur strákur, í kringum tvítugt.“

Þau ummæli Guðmundar Inga Guðbrandssonar að auðvitað myndi enginn enda á götunni féllu í umræðum sem luku með því að hann, ásamt flestum stjórnarliðum, greiddi atkvæði með frumvarpinu sem varð að lögum er tóku gildi í sumar. Tveir þingmenn VG, þar á meðal forsætisráðherra, voru fjarverandi í atkvæðagreiðslunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí