Blaðamenn gefast upp á mótmælum gegn ráðningu últra-hægrimanns í ritstjórastólinn

Blaðamenn sunnudagsblaðsins Le Journal du Dimanche í París, sem kalla mætti Sunnudagsblaðið, ákváðu í dag að láta af verkfalli sem staðið hefur síðan 22. júní. Tilefni verkfallsins var ákvörðun auðkýfingsins Vincent Bolloré, sem keypti blaðið í vor, að ráða Geoffroy Lejeune sem ritstjóra. Lejeune er kunnur últra-hægrimaður og mikill stuðningsmaður forsetaframbjóðandans Eric Zemmour, sem er hægra megin við Marine Le Pen.

Uppgjöf blaðamannanna var þó ekki algjör. Þeir sömdu um stuðning við þá blaðamenn sem ekki treysta sér til að vinna undir Lejeune sem ritstjóra. Þeim verður gert fært að yfirgefa blaðið og fá laun meðan þeir leita að annarri og skárri vinnu.

Le Journal du Dimanche er prentað í um 150 þúsund eintökum, sem þykir nokkuð gott á tímum hrörnunar dagblaða og tímarita, en upplagið var 275 þúsund eintök um aldamótin. Vincent Bolloré, höfuð fjölskyldu sem auðgaðist á viðskiptum í Afríku, keypti blaðið í vor og bætti því við fjölda blaða, útvarps- og sjónvarpsfyrirtækja sem hann hefur safnað saman að undanförnu og byggt með því upp öflugt og áhrifamikið fjölmiðlaveldi undir hatti fyrirtækjasamstæðunnar Vivendi. Vivendi á stóran hlut í Universal Music Group, sem aftur á svo til alla tónlistararfeið Íslands eftir kaupin á Öldu Music.

Vincent Bolloré er stækur hægri maður og hefur notað fjölmiðla sína til að undir vöxt öfga-hægrisins í Frakklandi. Hann hefur stutt Eric Zemmour, sem skilgreint hefur sig sem Gaulle-Bonapartista og vísað þar til tveggja sterkra manna franskra sögu, Charles du Gaulle og Napóleons. Þetta er ákall um gera Frakkland Great Again, svo vísað sé til bandarískra stjórnmála. Zemmour hefur mikla trú á mikilvægi sterkra manna við mótun sögunnar og telur sig einn af þeim. Hann talar gegn hnignun Frakklands sem hann rekur til innflytjenda, blöndunar kynstofna, baráttu fyrir kvenfrelsi, réttindum hinsegin fólks og öðrum sigrum mannréttindabaráttu síðustu áratuga. Zemmour vill lækka skatta á fyrirtæki og fjármagn og myndi því í flestu sóma sér vel í hægri flokkum flestra landa, er sannfærður um goðsögn nýfrjálshyggjunnar um mikilfengleika hinna ríku og að ríkið eigi að þjóna þeim.

Og því er ef til vill skiljanlegt að Vincent Bolloré finnist flest sem Zemmour segir vera snjallt og rétt. Ættarauður Bolloré byggðist upp á nýlendutímanum í Afríku, sem sótti réttlætingu sína í yfirburði hvíta kynstofnsins. Hann hefur gengist við mútugreiðslum í Afríku til að auðgast enn meira. Og hann hefur réttlætt það eins og margir sem greiða mútur í Afríku með því að það sé nú einu sinni þannig sem menn stundi viðskipti í álfunni.
Bolloré réð Geoffroy Lejeune vegna þess að hann er á sömu línu og hann pólitískt. Lejeune er eldheitur stuðningsmaður Zemmour, hefur meðal annars skrifað skáldsögu þar sem Zemmour er kjörinn forseti Frakklands.

Í tilkynningu franska blaðamannafélagsins segir að Geoffroy Lejeune muni nú loks ganga inn á ritstjórnarskrifstofur Le Journal du Dimanche en þær muni að mestu verða mannlausar þar sem stór hópur blaðamanna hafi kosið að hætta störfum fremur en að vinna undir ritstjórn Lejeune.

Lejeune hafði verið ritstjóri vikulega fréttatímaritsins Valeurs actuelles, sem kalla mætti Nútímagildi, frá 2015 en var rekinn þaðan í vor fyrir að hafa dregið blaðið of langt út á hægri jaðarinn. Útbreiðsla og lestur blaðsins hafði líka dregist saman, en þar sem lestur og sala tímarita dregst almennt saman þessi árin er erfitt að segja til um hvort samdráttinn megi rekja til pólitískrar stefnu ritstjórans. Fækkun lesenda var til dæmis ekkert í líkingu við það sem gerst hefur í ritstjóratíð Davíð Oddssonar á Mogganum.

Myndin er af Geoffroy Lejeune.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí