Löngu er vitað að Covid-19 getur skaðað hjarta, lifur, nýru og fleiri líffæri eftir að lungun hafa náð sér af sýkingunni. Nýbirt rannsókn sýnir mögulega hvernig.
„Rannsóknin færi okkur sterkar sönnur fyrir því að við þurfum að hætta að líta á Covid-19 sem öndunarfærasjúkdóm eingöngu og umgangast hann sem kerfisröskun sem hefur áhrif á fjölda líffæra,“ sagði Douglas C. Wallace, einn höfunda rannsóknarinnar, í yfirlýsingu samhliða birtingunni. „Sú viðvarandi starfstruflun sem við fundum í líffærum öðrum en lungum gefur til kynna að truflun í hvatbera geti valdið langtímaskaða á innri líffærum þessara sjúklinga.“
Forbes greindi frá rannsókninni sem birtist nú á miðvikudag í Science Translational Medicine, sérriti Science um viðfangsefni á mörkum vísinda, verkfræði og læknisfræði. Þar er greint frá þeim neikvæðu áhrifum Covid á líffæri önnur en lungu sem leiða til langtímaveikindanna sem nefnast einu nafni long Covid.
Veiran ræðst á hvatbera í fjölda líffæra
Í umræddri rannsókn voru tekin til skoðunar sýni úr öndunarvegi lifandi sjúklinga, úr krufningarrannsóknum og úr smituðum nagdýrum.
Rannsóknin sýnir hvernig prótín veirunnar bindast erfðaefni hvatbera, þess hluta í frumum mannslíkamans sem annast bruna og orkubúskap. Þannig breytir veiran formgerð hvatberans og hindrar orkunýtingu líffæra, sem getur valdið þeim verulegu tjóni.
Lungun eru fyrsta líffærið sem verður fyrir Covid-sýkingu, sem berst í líkamann um öndunarveg. Í rannsókninni var komist að þeirri niðurstöðu að jafnvel þó að hvatberar í lungum jafni sig, þá geti sýkingin haldið áfram að hafa neikvæð áhrif á önnur líffæri, þar með talin hjarta, lifur og nýru.
Höfundar leiða að því líkur að þar geti legið að minnsta kosti ein orsök long Covid, ef ekki meginorsök.
Í viðtali við STAT News, sem er fagmiðill ætlaður heilbrigðisstarfsfólki, sagði fyrrnefndur Wallace að hann hefði ekki verið hissa á því að veiran hefði áhrif á hvatbera, en furðu sleginn yfir því hversu veiran vandaði þar til verka, svo að segja. Það hversu víða veiran ratar og hefur áhrif, innan líkamans, sagði hann „undravert“.