„Grasflötin milli Borgartúnsturnanna er einhver alsorglegasti staður sem til er. Eitthvað segir mér samt að á tölvuteikningunni hafi verið menn að spássera í pólóbolum og ungar konur í sumarkjólum á reiðhjóli,“ skrifar Stefán Pálsson varaborgarfulltrúi Vg á Facebook-síðu sína undir myndinni hér að ofan.
Nokkur umræða skapaðist á þræðinum. „Borgartúnsturnarnir eru líka ákaflega sorglegir. Sagan á bak við þá dularfull. Hvernig stóð á því að þeir stækkuðu og stækkuðu, og skyggðu loks á geisla nauðsynlegs siglingarvita? Hefur þetta verið rannsakað. Þetta er held ég upplagt efni fyrir gagnrýninn sagnfræðing,“ skrifar Þorbergur Þórsson hagfræðingur.
Atli Hergeirsson bassaleikari í Toymachine birtir kafla úr kynningarefni um svæðið: „Höfðatorg – Reykjavík iðar af orku og athafnagleði. Mannlífið blómstrar og menningin dafnar. Borgin vex og breiðir úr sér og um leið ganga eldri borgarhlutar í endurnýjun lífdaga. Höfðatorg er eitt stærsta uppbyggingarverkefni í miðborg Reykjavíkur til þessa. Með metnaðarfullum áformum um samþættingu mannlífs, lista, menningar og viðskipta mun Höfðatorg gegna lykilhlutverki í borgarmyndinni. Einstök staðsetning skapar svæðinu sérstakan sess í hjarta Reykjavíkur. – Höfðatorg rís og miðborgin stækkar.“
Og Atli lætur kynningarmyndband fylgja með sem sýnir allt annan blæ en á myndinni sem Stefán dreifði, líka stemmingu og Stefán vísaði til.
„Þessi blessaða „grasflöt“ er skraufþurr og sprungin eftir þurrkana síðustu vikur – og ekki var hún glæsileg fyrir. En nú hillir loksins undir að þetta svæði verði fullfrágengið, þá hlýtur mannlífið að fara að blómstra þarna,“ skrifar Eygló Traustadóttir sjúkraliði.
„Þetta lítur svo sem ekki vel út – en er þó ekki útséð með. Það tekur um það bil 10 sinnum lengri tíma að rækta mannlíf í hverfi heldur en að byggja það. Máli skiptir að á svæðinu sé ekki félagsleg einrækt (monokúltúr) – en því miður verða hverfi sem þetta stundum að slömmi – þá tekur áratugi að hreinsa til,“ skrifar Trausti Jónsson veðurfræðingur.
Hér má sjá mynd úr kynningarefni frá verktakanum af garðinum milli húsanna: