Yfir 1800 manns hið minnsta hafa farist það sem af er ári í tilraunum sínum til að komast frá Norður Afríku til Evrópu.
41 flóttamaður hið minnsta drukknaði í liðinni viku undan ströndum ítölsku eyjunnar Lampedusa samkvæmt 4 eftirlifendum sem ræddu við fjölmiðla í morgun.
Fólkið, þrír menn og ein kona, hafði komið með bát frá Sfax í Túnis á miðvikudag en þau eru upphaflega frá Fílabeinsströndinni og Gíneu. Þau sögðu blaðamönnum að þau hafi verið á 7 metra löngum bát með 45 manns innanborðs, þar af þremur börnum á leið sinni til Evrópu. Báturinn hafi lagt af stað á þriðjudag frá Sfax sem er borg um 130 km frá Lampedusa og er vinsæl flóttaleið en farist aðeins örfáum klukkutímum seinna eftir að verða fyrir miklum öldugangi.
Aðeins 15 manns úr hópnum klæddust björgunarvestum og var eftirlifendum bjargað fyrst um borð í fragtskip en komið þaðan í hendur ítölsku strandgæslunnar.
Strandgæslan tilkynnti á sunnudaginn um tvo skipskaða á svæðinu en þá er ekki ljóst hvort þessi mannskæði skipskaði sé annar þeirra.