„Fæstir auðmenn munu nokkurn tíma geta keypt það sem þá vantar mest, sem er sálarfriður“

Marinó G. Njálsson sanfélagsrýnir segir að skammtímajaðarhagnaður hafi því miður orðið ofan á rekstri flestra fyrirtækja. Hann segir í pistli sem hann birtir á Facebook að meðan lanngtímajaðarhagnaður treystir á að fyrirtækið verði starfandi og arðbært til langs tíma þá skilji skammtímajaðarhagnaður eftir sig sviðna jörð. Hann veltir því fyrir sér hvers vegna þessi leið hafi verið farin. Var það til þess að menn gætu sýnst stærri en allir aðrir eða til að stært sig af því að hafa eyðilagt jörðina?

Hér fyrir neðan má lesa pistil Marinós í heild sinni.  

Eru hugmyndir fjárfesta um heilbrigt efnahagslíf að breytast?  Þær fréttir berast frá Bandaríkjunum, að fjárfestar séu ekkert of jákvæðir fyrir betri afkomu fyrirtækja, en áætlanir þeirra sögðu til um.

Ég lærði það í mínu námi í aðgerðarannsóknum á árunum 1986-88, að besti hagnaður af rekstri væri langtímajaðarhagnaður (long term marginal profit) og sá versti væri skammtímajaðarhagnaður (short term marginal profit).  Veit ekki hvort þessu hugtök eru lengur kennd í rekstrarfræði- og hagfræðinámi, en á þeim tíma var mikið haldið upp á þau.

Undanfarna áratugi hefur skammtímajaðarhagnaðurinn orðið ofan á, sem þýðir að við (mannkyn) eru sífellt að ganga óhóflega á auðlindir jarðarinnar, spúum eitri út í andrúmsloftið og mengum höf, ár og vötn, bara til að ná í aðeins meiri hagnað strax en hugsum ekki um afleiðingarnar til lengri tíma.  Og hvað ætla menn að gera, þegar búið er að tæma allar auðlindir jarðar?  Jú, þeir ætla út í geim og halda áfram eyðileggingunni þar.  (Þessu eru menn að velta fyrir sér, þó mannkynið hafi ekki byggt eitt einasta mannvirki á tunglinu, hvað þá á fjarlægum plánetum sem myndu henta fyrir þessa nýlenduherrahugsun.)

Til hvers eru menn að þessu?  Svo þeir verði svo efnaðir, að þeir geti eignast allt sem hugurinn girnist?  Til að sýnast stærri og meiri en samborgarar þeirra?  Eða til að geta stært sig af því, að hafa eyðilagt jörðina?  Ég er ekki viss um að margir velji þetta síðasta, en við munum enda þar, nema menn sjái að sér.  Hitt er, að fæstir auðmenn munu nokkurn tíma geta keypt það sem þá vantar mest, sem er sálarfriður, innra jafnvægi og auðmýkt.  Sá sem sífellt þarf að efnast meira, er ekki í snertingu við neitt af þessu.  Þetta eru þó mestu verðmæti sem nokkur getur eignast og það góða er að þau kosta ekki neitt, eru ekki á kostnað neins og það er ofgnótt af þeim fyrir alla að öðlast.

En hvað þýða þessi hugtök?  Langtímajaðarhagnaður er sá hagnaður sem fæst til lengdar á því að selja eina viðbótareiningu af vöru eða þjónustu.  Horft er yfir áratugi og því geta orðið sveiflur í hagnaðinum, en hann er alla jafna stígandi.  Skammtímajaðarhagnaður er hins vegar sá hagnaður sem fæst á stuttum tíma (kannski 1-5 árum) af því að selja eina viðbótareiningu af vöru og þjónustu og er alveg sama um hvað gerist eftir það.  Langtímajaðarhagnaðurinn treystir á að fyrirtækið verði starfandi og arðbært til langs tíma, meðan fyrirtæki hverra eigendur hugsa bara um skammtímajaðarhagnaði verða líklegast skammlíft og skilur eftir sig brunarústir og sviðna akra sem aðrir (oftast ríkisvaldið) þurfa að taka við.

En eru hugmyndir fjárfesta um heilbrigt efnahagslíf að breytast?  Það verður ekki dæmt af stundarhegðun markaðarins, en ég segi vonandi.  Langtímasjónarmiðin segja fyrirtækjum að þau þurfa að vernda umhverfið, huga að vellíðan samborgaranna, greiða starfsmönnum mannsæmandilaun, taka þátt í fjármögnun nauðsynlegra innviða samfélagsins og svona mætti lengi telja.  Allt þetta og margt fleira leggur grunn að velsæld þjóða til langs tíma, leyfir samt sumum að efnast umfram aðra, en skilur engan eftir vegna þess að það var svo auðvelt og ekki okkar hlutverk, eins og maður heyrir svo oft.  Langtímasjónarmiðin munu leiða til mannúðar, samkenndar, samheldni og betri framtíðar

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí