Samkvæmt Landssamtökunum Þroskahjálp hafa mannréttindi eflaust verið margbrotin á fötluðum manni um tvítugt þegar íbúð hans sem metin var á 57 milljónir var seld á nauðungaruppboði í Reykhjanesbæ í sumar á 3 milljónir. Maðurinn sem ekki er með íslensku að móðurmáli hafði keypt eignina fyrir bætur vegna læknamistaka og átti hana skuldlausa. Hann bjó í húsinu með foreldrum sínum og fjölskyldu. Þau hafa nú verið borin út og flutt í húsnæði félagsþjónustunnar í bænum.
Landssamtökin Þroskahjálp árétta á heimasíðu sinni í dag að mál Jakub Polkowski, fatlaðs manns í Reykjanesbæ sé augljóst og mjög alvarlegt brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar með þeim mannréttindum sem samningurinn stendur vörðu um.
Landssamtökin krefjast þess að íslenskir ráðamanna sýni í verki en ekki aðeins i orði vilja sinn og kjark til að tryggja og vernda mannréttindi fatlaðs fólks en líti ekki undan þegar það er aftur og aftur beitt augljósum og ömurlegum órétti.
Eins og segir á vef Þroskahjálpar: „Í júní bárust fréttir af því að húseign fatlaðs manns, Jakub Polkowski, hefði verið seld á nauðungaruppboði langt undir markaðsvirði eignarinnar og til stæði að bera hann og fjölskylduna út. Nú hefur orðið af því. Jakub hefur misst heimili sitt og aleigu og verið komið fyrir í félagslegri íbúð í Reykjanesbæ.
Í júní sendi Þroskahjálp erindi á Reykjanesbæ, sýslumanninn á Suðurnesjum, dómsmálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti auk Réttindagæslunnar. Þess var krafist að grein yrði gerð fyrir því með hvaða hætti gætt var að viðeigandi aðlögun í ferlinu sem leiddi til nauðungarsölu, hvernig aðgengi að upplýsingum var tryggt fyrir Jakub, sem bæði er fatlaður og af erlendum uppruna og hefur íslensku ekki að móðurmáli og hvaða leiðsagnar hann naut til að gæta þeirra mikilsverðu hagsmuna að missa ekki heimili sitt og aleigu. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvort Réttindagæslu fatlaðs fólks hafi verið gert viðvart og/eða haft samband við hagsmunasamtök fatlaðs fólks til að tryggja Jakub Polkowski hefði stuðning við að gæta hagsmuna sinna.
Af þeim svörum sem Þroskahjálp bárust við þessum fyrirspurnum má ljóst vera að ekkert þessara skilyrða var uppfyllt”.
Í samtali við samstöðina segir Unnur Helga formaður félagsins að þarna hafi verið á ferðinni stórkostleg mistök, mögulega vegna menningarmunar en aðallega sökum samskiptaskorts þar sem verkferlar allra hlutaðeigandi sem komu að málinu hafi verið of niður njörvaðir í einhver box. Þarna hafi algjörlega skort mannlegu samskiptin svo skilningur á málavöxtum lægju fyrir.
ÖBÍ réttindasamtök eru með mál Jakub á sínu borði einnig en Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður bandalagsins segir það koma í ljós á næsta stjórnarfundi hvort höfðað verði mál gegn Reykjanesbæ vegna málsins en hún telur það líklegt.